Traust til forsetans eykst

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Golli

Í könnun MMR á trausti almennings til forystufólks í stjórnmálum sögðust flestir, eða 41,7% þeirra sem tóku afstöðu, bera mikið traust til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. 

Traust til Ólafs Ragnars eykst mikið frá síðustu könnun, sem gerð var í maí 2010, en þá sögðust 26,7% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til hans.

Þá sögðust 22,3% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra borið saman við 37,6% í síðustu könnun. 16,9% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Jóhönnu Sigurðardóttir, forsætisráðherra, borið saman við 23,9% í síðustu könnun.

Vantraust á Steingrím J. Sigfússon hefur aukist verulega en 55,9% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til hans en þeir voru rúm 40% í síðustu könnun. Sömu sögu er að segja um Jóhönnu Sigurðardóttir en 60,5% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til hennar borið saman við 52,9% í síðustu könnun.

19,1% þeirra, sem tóku afstöðu, sagðist bera mikið traust til Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, en voru 13,8% í síðustu könnun. Þá sögðust 51,2% þeirra sem tóku afstöðu bera lítið traust til formanns Sjálfstæðisflokksins en í fyrra sögðust 67% vantreysta honum.

Nú voru 9,8% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðust bera mikið traust til Margrétar Tryggvadóttur, formanns þinghóps Borgarahreyfingarinnar samanborið við 16,1% sem sögðust bera mikið traust til Birgittu Jónsdóttur sem  var þingflokksformaður Hreyfingarinnar í síðustu könnun. 52,9% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til Margrétar en í síðustu könnun sögðust 55,4% bera lítið traust til Birgittu.

Traust á formanni Framsóknarflokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, er svipað og í síðustu könnun. Nú sögðust 15,3% þeirra sem tóku afstöðu bera mikið traust til Sigmundar Davíðs borið saman við 15,7% í fyrra. 

52% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera lítið traust til Sigmundar Davíðs en hlutfallið var 57,7% í síðustu könnun.

Jón Gnarr, borgarstjóri, kemur nú í nýr inn í mælinguna.  15,8 % þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til hans en 57,1% sögðust bera lítið traust til  borgarstjórans.

Flokksmenn treysta sínum leiðtogum

Steingrímur J. Sigfússon nýtur trausts meðal 82,2% þeirra sem sögðust myndu kjósa Vinstri græna væri gengið til kosninga nú. Jóhanna Sigurðardóttir nýtur trausts meðal 72,5% stuðningsmanna  Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýtur trausts meðal 68,4% framsóknarmanna og Bjarni Benediktsson nýtur trausts meðal 55,4% sjálfstæðismanna.

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur mikils trausts meðal 67,7% framsóknarmanna og 47,1% sjálfstæðismanna segjast bera mikið traust til hans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert