Verða að ná tökum á kælingu

Sigurður Emil Pálsson, viðbúnaðarstjóri hjá Geislavörnum ríkisins, segir mikilvægt að starfsmenn kjarnorkuversins í Fukushima í Japan nái tökum á kælingu á kjarnakljúfum versins. Ef það takist ætti hætta sem stafar frá verinu að minnka.

Stjórnvöld í Japan hækkuðu í dag þá hættu sem stafar frá Fukushima úr hættustigi 4 í hættustig 5. Sigurður sagði þetta ekki merkja að hætta frá verinu væri að aukast. Menn væru frekar að skilgreina betur það sem gerst hefði. Þessi skali fæli í sér lýsingu á ástandi frekar en spá um hættu. Þegar hætta skapaðist í kjarnorkuverinu á Þriggja mílna eyju í Bandaríkjunum árið 1979, var hún skilgreind sem 5, en þar slapp sáralítið af geislavirkum efnum út í andrúmsloftið. Það er hins vegar ekki uppi á teningnum í Fukushima.

„Það virðist sem betur virðist vera jákvæð þróun í þessu núna. Það þarf hins vegar að ná betri tökum á kælingu versins. Menn eru ekki í höfn með þetta vandamál ennþá. Geislavirku efnin deyja smám saman út og varminn er að minnka. Kjarnakljúfarnir munu hins vegar þurfa kælingu áfram, ef það tekst ekki að koma á kælingu þá getur orðið ofhitnun sem leiðir til þess að geislavirk efni losni,“ sagði Sigurður. Vandamálið er annars vegar geislavirkur úrgangur sem er í kælilaugum og hins vegar kjarnakljúfarnir sjálfir. Sigurður sagði að menn vonuðust eftir að hægt væri að nota kælikerfi versins sjálfs, en stefnt væri að því að koma afli á það á morgun.

Sigurður sagði að tæki sem mæla geislun væru mjög nákvæm og ekki væri hægt að útiloka að geislavirk efni ættu eftir að mælast í öðrum löndum í Asíu, en hann sagðist telja ólíklegt að þau kæmu fram á mælum hér á landi. Sigurður sagði að þó vandi þeirra sem væru að fást við kjarnorkuverið í Fukushima væri mikill mætti heldur ekki gleyma markaðslegum og félagslegum áhrifum svona óhapps. Það gæti haft veruleg áhrif ef t.d. geislavirk efni frá slysinu kæmu fram í matvælum jafnvel þó að það magn væri innan skilgreindra marka. Það myndi án efa hafa áhrif á sölu matvæla þó að heilbrigðisyfirvöld teldu óhætt að neyta þeirra. Sigurður minnti á að það væri alltaf nokkur náttúruleg geislun á jörðinni og smávægilegt magn manngerðra geislavirkra efna þýddi ekki endilega meiri heilsufarsleg áhrif á fólk.

Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, IAEA, telur ekki hættu á að slysið í Fukushima ógni íbúum í Tokyo.

Miklar skemmdir hafa orðið á kjarnorkuverinu í Fukushima.
Miklar skemmdir hafa orðið á kjarnorkuverinu í Fukushima. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert