Andlát: Þorsteinn Pálmi Guðmundsson

Þorsteinn Pálmi Guðmundsson.
Þorsteinn Pálmi Guðmundsson.

Þorsteinn Pálmi Guðmundsson, Steini spil, lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Fossheimum, hinn 18. mars, 77 ára að aldri.

Þorsteinn fæddist í Egilsstaðakoti í Villingaholtshreppi í Árnessýslu hinn 22. desember árið 1933.

Faðir Þorsteins var Guðmundur Hannesson frá Hlemmiskeiði á Skeiðum og síðar bóndi í Egilsstaðakoti og móðir hans var Guðbjörg Þorsteinsdóttir frá Hallgeirsey í Austur-Landeyjum.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Unnur Guðríður Jónasdóttir og eignuðust þau þrjú börn, þau Soffíu Guðbjörgu, Guðmund og Silju Sigríði. Barnabörn Þorsteins urðu sjö.

Þorsteinn stundaði nám við handavinnudeild Kennaraskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1954. Einnig sótti hann ýmis námskeið í handmennt á starfsferli sínum. Hann var kennari við Barna- og miðskóla Selfoss frá 1960 til 1964 og við Gagnfræðaskóla Selfoss frá 1964 til 1996. Þá var hann stundakennari við Tónlistarskóla Árnessýslu frá 1960 til 1967.

Þorsteinn sýndi mikinn tónlistaráhuga frá unga aldri og eignaðist sína fyrstu harmoniku 13 ára. Upp frá því byrjaði ferill hans sem tónlistamaður og festist nafnið Steini spil snemma við hann. Danstónlistin átti hug hans allan og var hann fljótt farinn að spila á dansleikjum. Í tíu ár lék hann með hljómsveit Óskars Guðmundssonar sem var ein vinsælasta hljómsveit Suðurlands á þessum árum.

Árið 1965 stofnaði hann Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar sem hann starfrækti í 24 ár við miklar vinsældir og spilaði hún mikið á dansleikjum. Gaf sveitin meðal annars út hljómplötur á sjöunda og áttunda áratugnum sem nutu mikillar hylli. Síðustu árin var hann meðlimur í Harmonikufélagi Selfoss.

Útför Þorsteins fer fram frá Selfosskirkju föstudaginn 25. mars og hefst athöfnin klukkan 15.00.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert