Harmar sölu skákmuna úr einvíginu mikla

Skákborðið umdeilda með eiginhandaráritunum Fischers og Spasskys.
Skákborðið umdeilda með eiginhandaráritunum Fischers og Spasskys.

Skáksamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem það harmar það að einstakir munir úr einvígi aldarinnar 1972 á milli skákmeistaranna Bobbys Fischer og Boris Spassky gangi kaupum og sölum og séu jafnvel seldir úr landi.

Tilefni yfirlýsingarinnar er að taflborð og taflmenn sem notaðir voru í einvíginu, sem fram fór í Laugardalshöll árið 1972, voru seldir á uppboði í New York sl. laugardag. Einvígisborðið var slegið á 67.500 dali, eða sem samsvarar um 7.750.000 kr. Guðmundur G. Þórarinsson, fyrrverandi forseti Skáksambandsins, var seljandi taflsins.

„Að mati Skáksambandsins er hér um að ræða þjóðargersemar sem eiga að tilheyra íslensku þjóðinni og ættu að vera í varðveislu hjá til þess bærum aðila eins og t.d. Þjóðminjasafninu. Sambandið vill hvetja þá aðila sem hafa undir höndum verðmæta muni úr einvíginu að hafa samband við Skáksambandið og/eða Þjóðminjasafnið til að hægt sé að skrá og kortleggja hvar viðkomandi munir séu niður komnir,“ segir ennfremur í yfirlýsingu Skáksambandsins.

Þá segir ennfremur að taflið sem selt hafi verið á uppboðinu hafi verið notað í þriðju skák einvígisins og að bókað sé í fundargerð á stjórnarfundi Skáksambandsins haustið 1972 að Guðmundur hefði fengið borðið að gjöf. Það sama haust hafi einnig verið bókað í fundargerð að allir stjórnarmenn í sambandinu fengju einnig árituð borð af skákmeisturunum tveimur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert