Mótuð verði þjóðaröryggisstefna

Farsóttir geta ógnað þjóðaröryggi.
Farsóttir geta ógnað þjóðaröryggi. Reuters

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að Alþingi skipi nefnd tíu þingmanna úr öllum þingflokkum til að móta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.

Samkvæmt tillögunni verður hlutverk nefndarinnar að fjalla um og gera tillögur um stefnu sem tryggi þjóðaröryggi Íslands á grundvelli herleysis. 

„Á vorum dögum er að öllu leyti friðvænlegra í okkar heimshluta frá því sem var á tímum kalda stríðsins. Aðrar ógnir og hættur á borð við mengunarslys, farsóttir, skipulagða glæpastarfsemi, netglæpi eða efnahagsþrengingar hafa hins vegar áhrif langt út fyrir landamæri og Ísland þarf að taka þær alvarlega eins og önnur ríki," segir í greinargerð með tillögunni.

Þar segir að ógnir af þessu tagi eigi það sameiginlegt að geta skollið á í einu vetfangi og nánast án nokkurs aðdraganda eða viðvarana. Íslendingar hafi orðið þess áskynja í bankahruninu haustið 2008 hvernig alþjóðleg fjármálakreppa getur skyndilega ógnað þjóðaröryggi. Í Japan sé veröldin vitni að því hvernig náttúruhamfarir geti valdið alvarlegu umhverfisslysi þegar ein ógn framkallar aðra. Í Norður-Afríku hafi brotist út hernaðarátök sem muni hafa víðtæk áhrif langt út fyrir þann heimshluta hvort sem litið er til öryggis-, efnahags- eða stjórnmála.

„Til að tryggja þjóðaröryggi þarf að liggja fyrir skýr stefna sem tekur mið af hefðbundnum og óhefðbundnum ógnum og skilgreinir nauðsynlegan viðbúnað og viðbragðsáætlanir vegna innra og ytra öryggis þegar hættur steðja að, sem og þýðingu milliríkjasamstarfs í því tilliti," segir í tillögunni.

Þingsályktunartillagan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert