Helgi risi í ballettheiminum

Svanavatnið í uppfærslu Helga hjá San Francisco-ballettinum.
Svanavatnið í uppfærslu Helga hjá San Francisco-ballettinum. Ljósmynd/Erik Tomasson

„San Francisco-ballettinn er á þessu stigi álitinn einn fremsti ballettflokkur Bandaríkjanna,“ segir David Wiegand, gagnrýnandi hjá San Francisco Chronicle, um framlag Helga Tómassonar, listræns stjórnanda San Francisco-ballettsins, til bandarískrar ballettmenningar. 

Ítarlega er rætt við Helga í Sunnudagsmogganum en hann gaf blaðamanni kost á viðtali á skrifstofu sinni ytra í lok mars.

Fyrstur til að setja upp Hnetubrjótinn

Wiegand segir San Francisco-ballettinn skipa veglegan sess í menningarlífi San Francisco-borgar.

„Flokkurinn hefur starfað lengi og á sér auðuga sögu - hann var fyrsti bandaríski ballettflokkurinn, svo dæmi sé tekið, til að setja upp Hnetubrjótinn Ég hef fylgst með flokknum vaxa á síðustu 20 árum í San Francisco. Flokkurinn var í fyrstu, vegna bakgrunns Helga í City Ballet og samstarfs hans með George Balanchine, fyrst og fremst þekktur sem einn fárra flokka sem höfðu það að markmiði að varðveita arfleið Balanchine,“ segir Wiegand en George Balanchine, einn lærimeistara Helga, er risi í ballettheiminum.

Ballettflokkurinn þróast 

„Snemma á tíunda áratugnum fór mikið fyrir verkum Balanchines á efnisskránni. En með tímanum kynnti Helgi ekki aðeins stöðugt meira af eigin verkum heldur hlúði einnig að verkum annarra danshöfunda, þar með talið verkum vaxandi danshöfunda frá hans eigin ballettflokki, á borð við Juliu Adam og Júrí Possokhov, ásamt því sem verk ungra danshöfunda hvaðanæva úr heiminum hafa gert gríðarlega mikið fyrir San Francisco-ballettinn.

Ástæðan fyrir því að þetta fólk vill starfa með San Francisco-ballettinum er sú að það veit að ekki aðeins verður vel um það séð hjá yndislega hæfileikaríkum ballettflokki, heldur einnig vegna þeirrar virðingar sem fylgir því að eiga verk sem hafa verið sett upp hjá sjálfum San Francisco-ballettinum.

Fjölbreytni og dýpt efnisskrárinnar eru jafn mikilvæg fyrir dansflokkinn á 21. öldinni og áhersla hans á Balanchine var fyrir 20 árum. Ég lít svo á að Helgi hafi talið þann vöxt og þá þróun algerlega nauðsynlega fyrir ballettinn svo hann héldi stöðu sinni sem dansflokkur í lykilhlutverki.“

Blanda klassískra balletta og tilraunamennsku

Wiegand hrósar Helga fyrir efnisvalið. 

„Fyrir utan framúrskarandi uppfærslur af verkum Balanchines, Marius Petipa, ásamt verkum Fredericks Ashton og annarra meistara fortíðarinnar, felst spennan við að fylgjast með San Francisco-ballettinum í því að sjá hvernig hann vex og dýpkar, ár frá ári.

Hér verð ég að bæta því við að áhorfendur gegna hér líka mikilvægu hlutverki. Helgi skilur ekki aðeins dans heldur veit sem er að dansáhugamenn við San Francisco-flóann eru sérstaklega forvitnir og þeim er umhugað að sjá nýsköpun í dansinum, sem og nýjar útfærslur af klassískum ballett.“

Helgi Tómasson á skrifstofu sinni í San Francisco.
Helgi Tómasson á skrifstofu sinni í San Francisco. Morgunblaðið/Baldur Arnarson
Yuan Yuan Tan í hlutverki sínu í Litlu hafmeyjunni í …
Yuan Yuan Tan í hlutverki sínu í Litlu hafmeyjunni í útfærslu Neumeiers en verkið er nú til sýninga hjá San Francisco-ballettinum. Ljósmynd/Erik Tomasson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka