Icesave kallar á hærri skatta

Verslunarmiðstöðin Smáralind. Gert var ráð fyrir því að einkaneysla myndi …
Verslunarmiðstöðin Smáralind. Gert var ráð fyrir því að einkaneysla myndi drífa hagvöxt á árinu. Hækkandi bensínverð hefur átt þátt í að slá á þær væntingar. Ernir Eyjólfsson

Samþykki Íslendingar Icesave-samninginn mun það kalla á skattahækkanir, enda á ríkisstjórnin ekki annarra kosta völ andspænis miklum hallarekstri á ríkissjóði. Þetta er mat Þórs Saari, þingmanns Hreyfingarinnar, sem bendir á að tekjur af einkaneyslu verði að líkindum minni í ár en búist var við.

„Það eru ekki til peningar í ríkissjóði fyrir þessu. Eina leiðin er þá að hækka skatta eða skera niður. Maður vonar að Icesave-skuldin hækki ekki upp úr öllu valdi því það er ekki svigrúm til að hækka skatta meira eða skera meira niður í ríkisrekstrinum.“

Stöðnunarskeið á Íslandi

Þór segir hagkerfið í hægagangi.

„Það er stöðnun í gangi á Íslandi. Fréttir um 15% minni umferð er skýr vísbending um að fólk hefur ekki lengur efni á að viðhalda sama neyslustigi. Það þrengir sífellt að almenningi. Ég hef áður bent á að þessi ársfjórðungur yrði mörgum fjölskyldum erfiður,“ segir Þór og bendir á að tekjur af einkaneyslu verði því ekki jafn miklar í ár og ráð var fyrir gert.

Það kalli að óbreyttu á meira aðhald í ríkisrekstrinum á næsta ári, árinu 2012, en vonir stóðu til, nema til komi erlend fjárfesting í hagkerfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert