Niðurstaðan má ekki sundra

Ólafur Ragnar Grímsson les yfirlýsingu sína.
Ólafur Ragnar Grímsson les yfirlýsingu sína. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á blaðamannafundi á Bessastöðum, að niðurstaðan í Icesave-kosningunni í gær mætti ekki sundra þjóðinni því brýnna væri nú en nokkru sinni að þjóðin standi saman. 

Á fundinum las Ólafur Ragnar upp yfirlýsingu, sem hann birti vegna niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í gær og sagði m.a. að atkvæðagreiðslurnar um Icesave-lögin hefðu fært íslensku þjóðinni sjálfstraustið á ný. Á komandi tímum væri mikilvægt, að halda hátt á loft málstað þjóðarinnar í hinni alþjóðlegu umræðu, flytja sterk rök einum rómi.

Ólafur Ragnar sagði, að rök Íslendinga væru mjög sterk. „Halda menn, að Financial Times og Wall Street Journal, sem á hverjum degi eru að gera upp við sig hvaða skoðun þessir áhrifaríkustu fjölmiðlar í alþjóðlegu viðskiptalífi eiga að hafa á einstökum málum, væru að lýsa eindregnum stuðningi við málstað Íslendinga ef það væru ekki rík efnisleg rök til þess?" spurði Ólafur Ragnar.

Í yfirlýsingunni segir Ólafur, að þrátt fyrir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar nú sé eðli Icesave-málsins á þann veg, að ríkissjóðir Bretlands og Hollands muni fá gríðarlegar fjárhæðir í sinn hlut úr þrotabúi Landsbankans og muni fyrstu greiðslurnar hefjast innan fárra mánaða. Alls gætu þessar greiðslur til Breta og Hollendinga numið rúmlega 1000 milljörðum króna. Því sé rangt að fullyrða, að Bretar og Hollendingar fái ekkert í sinn hlut. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert