Hlé fram yfir páska

Þorbjörn Guðmundsson.
Þorbjörn Guðmundsson.

„Við lítum ekki á þetta sem alger samningsslit, heldur að menn séu að taka sér hlé,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar.

Ekki verður tekin ákvörðun fyrr en eftir páska um hvort kjaraviðræðum Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins verður vísað til ríkissáttasemjara.

Fundað var um stöðu viðræðnanna hjá landssambandinu í gær og ákveðið að bíða með að taka ákvörðun um hvort vísað verður til sáttameðferðar fram í næstu viku.

„Við ætlum bara að taka þessu rólega fram yfir páska,“ segir Þorbjörn. „Ég hugsa að við tökum ekki afstöðu til þessa fyrr en í fyrsta lagi á þriðjudag eða miðvikudag. Við setjumst yfir þetta eftir páska og endurskoðum þetta allt saman.“

Samninganefnd ASÍ fundar um stöðuna í kjaraviðræðunum eftir hádegi í dag. Ákvörðun um hvort vísa eigi kjaradeilum til sáttasemjara er hins vegar  alfarið á valdi einstakra landssambanda og aðildarfélaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert