Þessi meirihluti er óhæfur

Hanna Birna Kristjánsdóttir.
Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag, að meirihlutinn í borgarstjórn væri óhæfur til að stýra brýnustu verkefnum borgarinnar.

Sagði Hanna Birna að meirihlutinn sinnti risastórum verkefnum illa, byrjaði allt of seint að undirbúa þau og ráðfærði sig ekki við starfsmenn og þá sem komi að málunum.

Hún sagði, að minnihlutinn hefði ítrekað rétt fram sáttahönd og samráð við sparnaðartillögur en á það hefði ekki verið hlustað. Svo leyfði borgarstjóri sér að segja að ekki væri hægt að gera neitt annað, en að skera upp skólakerfið. Byrjað væri á börnunum og síðan ætti að hagræða á hörðu sviðunum, framkvæmdasviði og hugsanlega skipulagssvið.  Þetta segði allt sem segja þyrfti um það hvernig forgangsröðin sé.

Sagði Hanna Birna, að minnihlutinn væri á móti tillögum meirihlutans vegna þess að í þeim fælist engin framtíðarsýn fyrir skólakerfið í Reykjavík. Þá skiluðu breytingarnar lítilli hagræðingu og vinnubrögðin við sameininguna væru ótrúleg.

46 konum sagt upp

„Það er ekkert sem mælir með þessum aðgerðum núna," sagði Hanna Birna.  Sagði hún, að segja ætti upp 46 stjórnendum á skólasviðinu upp um mánaðamótin og það væru allt konur.

Sagði hún að borgarstjórinn ætti frekar að líta sér nær og fækkað þeim aðstoðarmönnum, sem hann hefði komið sér upp.

Hanna Birna sagði, að sjálfstæðismenn  ætluðu enn eina ferðina að leggja fram tillögu um að sameiningartillögurnar verði dregnar til baka. Sagði hún, að Jón Gnarr, borgarstjóri, ætti að biðja skólasamfélagið, foreldrana og fagaðila að koma að borðinu og segja: Ég er friðarsinni og ég vil leysa málið í friði og sátt. Það væri betra en að neita að taka á móti yfirmönnum á þýskum herskipum eins og gerðist í síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert