Spilað með ævistarf fólks

Frá Laugavegi og Bankastræti
Frá Laugavegi og Bankastræti mbl.is/G. Rúnar

Kaupmenn á Laugaveginum eru uggandi vegna fyrirhugaðrar lokunar á hluta götunar. Borgarstjórn stefnir að því að gera kaflann frá Vatnsstíg að Skólavörðustíg að göngugötu og loka honum fyrir bílaumferð.

Neyðarfundur var haldinn á vegum samtakanna Miðborgin okkar í gær vegna þess sem kaupmenn kalla þvingun af hálfu borgarinnar. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er þungur andi í kaupmönnum við Laugaveg vegna málsins enda sé verið að spila með ævistarf fólks sem hefur allt undir. Á svæðinu sem um ræðir eru starfræktar 40 verslanir og 25 veitingastaðir. Í tilkynningu frá meirihluta borgarstjórnar í dag segir að meirihluti hagsmunaaðila við Laugaveg séu hlynntir breytingunni en það virðist ekki vera alls kostar rétt.

 „Ég hefði viljað sjá þetta gert í hægari skrefum," segir Guðbjörg Kr Ingvarsdóttir skartgripahönnuður og eigandi verslunarinnar Aurum. „Okkur finnst þetta ekki hafa verið unnið í samráði við okkur, því við viljum samstarf við borgina en það virðist ekki ganga mjög vel.“

Guðbjörg segir málið hafa margar hliðar sem velt var upp á fundinum í gær. Sumum finnist sem verið sé að slíta Laugaveginn í sundur og aðrir hafi bent á að veitingastaðir og verslanir þurfi að flytja til sín aðföng og þá þurfi að vera opið fyrir umferð, a.m.k. til hádegis. Þá var því einnig velt upp hvernig breytingarnar kæmu niður á öldruðum og hreyfihömluðum. „Svo erum við auðvitað  svo háð veðrinu. Við vitum það verslunareigendur þarna að ef veðrið er ekki gott getur það gert okkur mjög erfitt fyrir að loka svæðinu í lengri tíma.“ Laugavegurinn sem verslunarsvæði sé viðkvæmari en önnur að þessu leyti.

„Ég held líka að fólk sætti sig ekki við við að þetta sé bara ákveðið svona án þess að ræða við okkur,“ segir Guðbjörg. „Fólk er tilbúið að prófa og sjálfri finnst mér spennandi að prófa þetta í kringum helgarnar og sjá hvernig það gengur, en ekki að skella strax á tveggja mánaða lokun. Við teljum að það hefði mátt vinna þetta svolítið betur, því ekki er bærinn fallegur án verslana. Maður leggur ýmislegt á sig til að fegra miðbæinn og glæða hann lífi og vildi því sjá þetta unnið í samráði við okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert