Ekki í sátt og samráði við sjómenn

mbl.is / Heiðar Kristjánsson

Mjög alvarlegar athugasemdir eru gerðar við frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórn fiskveiða, svonefnt litla frumvarp, í umsögn Sjómannasambands Íslands. Umsögnin var lögð fram á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis á mánudagsmorgun en sambandið fékk ósk um umsögn frá nefndinni á föstudagskvöld.

Fram kemur í umsöginni að Sjómannasambandið telji „óeðlilegt að ráðherra eða framkvæmdavaldinu almennt sé gefið víðtækt vald með setningu reglugerða um ýmis mikilvæg atriði.“ Þess í stað eigi löggjafarvaldið að mati sambandsins að Alþingi eigi að setja reglur um stjórn fiskveiða með lögum og að það eigi að heyra til undantekninga að ráðherra geti upp á sitt eindæmi ákveðið skipan mála með reglugerðum.

„Almennt má segja um frumvarpið að með því sé verið að taka veiðiheimildir af þeim sem hafa atvinnu af sjómennsku og flytja til þeirra sem stunda sjómennsku í frítíma sínum eða til að auka veiðiheimildir smábáta,“ segir í umsögninni og ennfremur að hvergi í frumvarpinu sé að finna nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum sem bæti hag sjávarútvegarins.

„Eins og að framan er rakið fær frumvarpið mjög neikvæða umsögn hjá Sjómannasambandi Íslands og er það ekki samið í sátt eða í samráði við sambandið. Því er mælst til þess að frumvarpið verði ekki að lögum,“ segir í lok umsagnarinnar.

Umsögn Sjómannasambands Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka