Skýrsla rannsóknarnefndar birt

Rannsóknarnefnd kirkjunnar kynnir skýrsluna í Þjóðmenningarhúsinu í dag.
Rannsóknarnefnd kirkjunnar kynnir skýrsluna í Þjóðmenningarhúsinu í dag. mbl.is/Eggert

Meta ber framgöngu einstakra vígðra þjóna og annarra starfsmanna þjóðkirkjunnar á árinu 1996 í því ljósi að ásakanir, sem komu fram um kynferðisbrot  beindust að æðsta yfirmanni kirkjunnar og hirði prestanna, sjálfum biskupnum.

Þetta kemur m.a. fram í skýrslu rannsóknarnefndar þjóðkirkjunnar, sem birt var í dag umstarfshætti og viðbrögð kirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni, biskupi, um kynferðisbrot.

Í skýrslunni segir ljóst,  að þegar Sigrún Pálína Ingvarsdóttur lagði fram erindi sitt 25. janúar 1996 til formlegrar meðferðar hjá siðanefnd og stjórn Prestafélags Íslands hafi atvik átt sér stað innan þjóðkirkjunnar sem settu svip sinn á viðhorf stjórnar og nefndarmanna til málsins og málsmeðferð í siðanefndinni og stjórn félagsins, og einnig á vettvangi kirkjuráðs og Prófastafélags Íslands.

Hafi þessi aðstaða leitt til þess að tilhneigingar hafi gætt í þá átt að litið væri á ásakanir Sigrúnar Pálínu, Dagbjartar Guðmundsdóttur og Stefaníu Þorgrímsdóttur sem lið í „valdabaráttu“ á milli stuðningsmanna og andstæðinga biskups og það jafnvel álitið að þær væru beinlínis settar fram fyrir tilstuðlan þeirra síðarnefndu til að „koma höggi á“ biskup.

Þá verði ótvírætt ráðið af framburði þeirra, sem komu fyrir nefndina, að áhrif Ólafs Skúlasonar á samstarfsmenn sína og aðra starfsmenn kirkjunnar hafi verið verulega mikil. Hafi hann með framgöngu sinni haft mótandi áhrif á aðgerðir  einstaklinga sem að málinu komu, hvort sem er á vettvangi kirkjuráðs,  Prófastafélags Íslands eða stjórnar Prestafélags Íslands.

Þá liggi fyrir að Ólafur Skúlason biskup hafi sjálfur gerst sekur um trúnaðarbrot
við meðferð málsins á árinu 1996. Grunsemdir hafi verið uppi um að trúnaðarupplýsingum hafi verið „lekið“, annaðhvort til fjölmiðla og/eða til biskups, af hálfu stjórnarmanna í Prestafélagi Íslands sem fjölluðu um málið í janúar, febrúar, mars og apríl 1996. Rannsóknarnefndin hafi hins vegar ekki forsendur til að skera úr um þetta atriði.

Rannsóknarnefndin gerir sérstakar athugasemdir við þá ákvörðun sr. Baldurs Kristjánssonar, varaformanns stjórnar Prestafélags Íslands, sem á þessum tíma gegndi trúnaðarstarfi gagnvart biskupi sem biskupsritari og ritari kirkjuráðs, að sitja áfram fundi stjórnarinnar í febrúar og mars 1996 þar sem erindi  kvennanna þriggja voru til umfjöllunar af hálfu stjórnarinnar.

Þá verði líka að telja það ámælisverð vinnubrögð af hálfu stjórnarinnar að krefjast þess ekki þegar í stað að Baldur viki sæti í stjórninni þegar „biskupsmálið“ var komið á borð stjórnarinnar í lok janúar 1996, enda var þess ekki að vænta að hann gæti litið óhlutdrægt á málavexti í ljósi trúnaðarsambands síns við biskup.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert