Óróinn er farinn alveg niður

Myndin sýnir brúna yfir Múlakvísl, en hún fór af stöpli …
Myndin sýnir brúna yfir Múlakvísl, en hún fór af stöpli sínum í morgun og liggur núna með árbakkanum. Stöplarnir standa upp úr ánni. mbl.is/Jónas Erlendsson

„Þetta er annað hvort lítið eldgos eða jarðhitavatn að hlaupa fram. Það er ýmislegt sem bendir til að þetta gæti hafa verið lítið eldgos, en því er þá nánast að öllu leyti lokið núna. Óróinn er farinn alveg niður og það er það sem skiptir máli,“ segir Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur.

Freysteinn segir mikilvægt að fylgjast áfram vel með Mýrdalsjökli. Það verði áfram öflug vakt hjá Veðurstofunni og þess vegna m.a. hafi menn talið óhætt að lækka skilgreint hættustig almannavarna.

Dæmi eru um það að eldgos hafi hafist í kjölfar jökulhlaupa, en það gerðist m.a. Grímsvötnum 2004. „Það eru engar sérstakar vísbendingar um að þetta hlaup virki sem gikkur fyrir stærra gos,“ segir Freysteinn, en minnir jafnframt á að dæmi séu um þetta hér á landi.

„Þetta er vísbending um að Katla er eldfjall sem er til alls víst og þarf að vakta og fylgjast mjög vel með,“ segir Freysteinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert