Sandsílastofninn enn í lægð

Sandsíli
Sandsíli

Útbreiðsla sandsíla virðist minni í ár og eins er þéttleiki þeirra lítill. Þetta er niðurstaða tíu daga sandsílaleiðangurs Hafrannsóknarstofnunar sem lauk á miðvikudag. Niðurstöður leiðangursins gefa til kynna að sandsílastofninn sé áfram í mikilli lægð og haldi áfram að minnka.

Þann 13. júlí lauk tíu daga sandsílaleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar á skipinu Dröfn RE 35. Farið var á 4 svæði, Breiðafjörð, Faxaflóa, Vestmannaeyjar að Vík og Ingólfshöfða.

Þetta er sjötta árið sem farið er í slíkan leiðangur, en markmiðið er m.a. að meta breytingar í stofnstærð og afla upplýsinga um styrk árganga hjá sandsíli. Þessar fyrstu niðurstöður eru háðar óvissu því þær eru eingöngu byggðar á lengdarmælingum á síli en ekki á aldurslesningum. Vöxtur á milli ára er breytilegur hjá síli og einnig er mikill breytileiki í lengd eftir aldri innan árs og milli svæða.

Á næstu mánuðum fara fram aldursgreiningar á sýnum ársins og frekari úrvinnsla. Eins og síðastliðin ár var uppistaðan í sandsílaaflanum sumarið 2011 4 ára síli, þ.e. af 2007 árgangi.

Á öllum svæðum var þéttleiki sandsílis lítill og einnig virtist útbreiðslan vera minni en áður innan hvers svæðið. Við Suðurströndina fannst nánast ekkert af yngra síli.

Á Breiðafirði og Faxaflóa fundust auk fjögurra ára sílanna lítilræði af eins til þriggja ára fiskum. Fjöldi seiða frá því í vor var með minnsta móti og fannst mjög lítið við Suðurströndina en meira undan Vesturlandi.

Einnig var meðallengd seiða sú minnsta frá því athuganir hófust. Árgangurinn frá 2007 er sá eini sem telja má stóran frá því vöktun á sandsílastofninum hófst árið 2006. Nýliðun hefur verið slök síðan þá og því er lítið af yngra síli í stofninum.

Ekki er hægt að segja til um nýliðun þessa árs með neinni vissu fyrr en sést hvernig hún skilar sér sem 1 árs síli á næsta ári. Í fyrra fundust mörg og stór seiði af 2010 árgangi en hann skilaði sér illa sem 1 árs síli í leiðangrinum nú.

 Það voru þeir Valur Bogason og Kristján Lilliendahl sem önnuðust þessar rannsóknir um borð í Dröfn RE 35, en skipstjóri var Gunnar Jóhannsson, að því er fram kemur í frétt á vef Hafrannsóknarstofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert