Mannréttindasjónarmið ráði

Samtökin No Borders í Reykjavík, sem berjast fyrir réttindum flóttafólks, krefjast þess að Ögmundur Jónasson innaríkisráðherra, snúi við þeirri ákvörðun Útlendingastofnunnar um að vísa Mouhamde Lo, flóttamanni frá Máritaníu, úr landi.

Í hádegisfréttum RÚV var sagt frá því að Lo fer nú huldu höfði í Reykjavík til að forðast að vera vísað úr landi en í tilkynningu sem No Borders sendu fjölmiðlum segir að verði hann sendur aftur til Máritaníu þar sem hann var þræll, verði hann geldur eða hugsanlega drepinn.

Samtökin segja Útlendingastofnun og ráðherrann bera fyrir sig Dyflinnarreglugerðinni en Lo hefur þegar sótt um hæli í Noregi og verið neitað. Samtökin segja þó að mannréttindasjónarmið og samningar kalli á að Lo verði veitt tímabundið dvalarleyfi í það minnsta.

Segja þau ennfremur að Lo hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð þar sem m.a. hafi ekki verið hægt að finna túlk sem talar móðurmálið hans og hann hafi því aldrei fengið tækifæri til að koma sögu sinni og sjónarmiðum á framfæri. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert