„Fannst um alla borg"

Glerbrot og brak úr byggingunum dreifðust um stórt svæði.
Glerbrot og brak úr byggingunum dreifðust um stórt svæði.

Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands í Ósló, segir að sprengingin hafi fundist um alla borg og sendibústaður Íslands, sem er í tveggja til þriggja km fjarlægð, hafi leikið á reiðiskjálfi. Hann hefur ekki fengið upplýsingar um hvort einhverjir Íslendingar hafi verið í nágrenni staðarins þar sem sprengjan sprakk.

Norska fréttastofan NTB segist hafa fengið það staðfest, að tveir að minnsta kosti hafi látið lífið í sprengingunni.  Norska Dagbladet segir á vef sínum, að líklega hafi verið um að ræða sprengjutilræði, sem hafi beinst gegn olíu- og orkumálaráðuneyti landsins.

Gunnar segir, að  sendiráð Íslands sé ekki langt frá þeim stað þar sem sprengjan sprakk en talið er að sprengju hafi verið komið fyrir nærri fjármálaráðuneytinu sem er í grennd við Stórþingið. Það er mjög nálægt Karli Jóhann, sem er aðalgatan í miðborg Óslóar en sendiráðið er þar ekki langt frá.

Sprengingin var það öflug að Gunnar, sem var staddur talsvert langt frá miðborginni í bílakjallara fann vel fyrir henni. „Ég hugsaði með mér að það  væru komnar þrumur og eldingar," sagði Gunnar í samtali við mbl.is.

Hann segir að ekki liggi enn fyrir hvort um bílsprengju eða annars konar sprengju að ræða. Nánast allar rúður í byggingunni sem stendur næst hafi sprungið og fólk hafi legið í blóði sínu fyrir utan. 

Búið sé að koma öllum þingmönnum og ráðherrum í skjól og búið er að rýma svæðið í kring og loka götum.

Íslendingar um allt í Ósló

Gunnar segir of snemmt sé að segja til um hvort einhverjir Íslendingar hafi verið þarna í nágrenninu en gengið verði í skugga um hvort svo hafi verið.

„Það eru náttúrulegar Íslendingar hér alls staðar um þessar mundir og við munum freista þess að fá úr því skorið hvaða tengiliður það er sem getur staðfest það að enginn Íslendingur hafi komið við sögu. Það mun hins vegar taka einhvern tíma enda ríkir algjör ringulreið þarna," segir Gunnar í samtali við mbl.is.

Hefur ekki heyrt frá Íslendingum

„Ég hef ekki heyrt frá neinum Íslendingum vegna þessa en auðvitað er ég á vaktinni hér heima, fylgist með og svara kalli ef þarf. Fréttir af þessu eru enn sem komið er mjög óljósar," sagði Arna Grétarsdóttir prestur íslenska safnaðarins í Osló í samtali við mbl.is.

Sprengingin í miðborginni varð örskammt frá þeim stað þar sem aðsetur Íslendingafélagsins og prests Íslendinga í Noregi er.

Bein útsending  frá Ósló

Myndir vegfarenda á Twitter
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert