Hóta að banna innflutning frá Íslandi og Færeyjum

Maria Damanaki fer með sjávarútvegsmál hjá framkvæmdastjórn ESB
Maria Damanaki fer með sjávarútvegsmál hjá framkvæmdastjórn ESB Reuters

Sendinefndir Norðmanna og Evrópusambandsins, sem fara með sjávarútvegsmál, kynntu í gær fyrir Mariu Damanaki, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn ESB, áætlun í fimm liðum varðandi makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga.

Miðar áætlunin að því að koma þjóðunum tveimur  að samningaborðinu á ný. Að öðrum kosti verði bann lagt við innflutningi á sjávarafurðum frá þjóðunum tveimur.

Eins er lagt til að viðræður um aðildarumsókn Íslands að ESB verði frystar þangað til markíldeilan leysist.

Damanaki fundaði í gær með sendinefndum Norðmanna og Evrópusambandinu, þar á meðal Skotum. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem birt var eftir fundinn í Brussel í gær er þess krafist að Norðaustur-Atlantshafsveiðinefndin (NEAFC) rannsaki þegar veiðar Íslendinga og Færeyinga með tilliti til hvort þær standist lög.

Áhyggjur þeirra beinist einkum að Færeyingum þar sem öflugir útlendir togarar veiði makríl á þeirra vegum þar sem þeirra eigin togarar ná ekki að veiða upp í kvótann sem er 150 þúsund tonn, samkvæmt frétt á vefnum Fishupdate.

Ef Íslendingar og Færeyingar hunsa viðvaranir þær sem þeim hafa borist eigi ESB að íhuga að setja algjört bann við innflutningi á fiski og sjávarafurðum frá löndunum tveimur. Jafnframt hafi verið óskað eftir því við ESB að aðildarumsókn Íslendinga verði fryst þar til sátt næst, samkvæmt frétt Fishupdate.

Góðu fréttirnar séu þær að makrílstofninn sé sterkur og í góðu ástandi en á fundinum var varað við því að ef ekki verður brugðist við ránsveiðum Íslendinga og Færeyinga muni stofninn bera varanlega skaða af.

Í ályktun fundarins er jafnframt lýst yfir fullum stuðningi við skoska sjómenn. Fulltrúar samtaka skoskra uppsjávarfiskimanna voru meðal þeirra sem sátu fundinn. Samtökin vilja að Íslendingar og Færeyingar verði beittir refsiaðgerðum virði þær ekki aflamark sem ESB setur á makrílveiðar.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert