Rekstrarfélag um fasteignir Hannesar í þrot

Fjölnisvegur 11.
Fjölnisvegur 11.

Eitt reisulegasta íbúðarhús miðbæjar Reykjavíkur er væntanlegt á markað á ný, en þar er um að ræða húsið við Fjölnisveg 11.

Húsið er önnur tveggja eigna eignarhaldsfélagsins Fjölnisvegar 9 ehf., sem áður var í eigu Hannesar Smárasonar fjárfestis, sem fór meðal annars fyrir fjárfestingafélaginu FL Group. Leifar þess félags heita í dag Stoðir og eru í meirihlutaeigu Glitnis, Nýja Landsbankans og Arion banka.

Félag um rekstur fasteignanna

Landsbankinn leysti Fjölnisveg 9 ehf. til sín á síðasta ári, en það hefur nú verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum var eini tilgangur félagsins sá að halda utan um rekstur áðurnefndrar húseignar, sem og glæsiíbúðar í Lundúnum. Þar sem félagið hafi ekki getað staðið undir skuldum hafi hins vegar fátt verið í stöðunni annað en að taka það til gjaldþrotaskipta.

Misræmið milli nafngiftar félagsins og númers hússins sem félagið á skýrist af því að áður var eignin við Fjölnisveg 9 í eignasafni félagsins. Hannes keypti það hús hins vegar af félaginu árið 2007 og seldi konu sinni. Hermt var á sínum tíma að Hannes hygðist tengja húsin tvö með tengibyggingu.

Fasteignin í London, sem metin er á vel á annan milljarð króna, hefur verið til sölu um nokkurt skeið, en ekki tekist að koma henni út. Það var hið breska dótturfélag Kaupþings, Singer & Friedlander, sem lánaði Fjölnisvegi 9 ehf. fyrir eigninni. Singer & Friedlander á stærstu kröfuna í þrotabúið. Landsbankinn kemur þar á eftir, en einnig er hugsanlegt að FI fjárfestingar, sem er í eigu Hannesar og hét áður Fjárfestingafélagið Prímus, lýsi kröfu í búið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert