Býður óverðtryggð íbúðalán

Arion banki mun frá 15. september bjóða viðskiptavinum sínum óverðtryggð íbúðalán til 25 eða 40 ára.

Að sögn bankans verða lánin með föstum vöxtum til fimm ára. Á fimm ára fresti verði vextirnir endurskoðaðir og taki mið af markaðsvöxtum sem séu í gildi á hverjum tíma. Viðskiptavinir geti einnig valið aðra kosti ef þau óverðtryggðu kjör sem þá bjóðast séu óhagstæð.
 
Um tvenns konar óverðtryggð lán er að ræða. Annars vegar lán sem nema allt að 60% veðhlutfalli fasteignar, bera 6,45% fasta vexti í fimm ár og eru til 25 eða 40 ára. Hins vegar viðbótarlán sem nema frá 60% til 80% veðhlutfalli fasteignar, bera 7,55% fasta vexti i fimm ár og eru til allt að 25 ára. Til að eiga kost á láni þurfa viðskiptavinir að standast greiðslumat bankans. 

Bankinn segir, að með því að bjóða upp á fasta vexti til fimm ára og úrval valkosta að þeim tíma liðnum sé komið til móts við sjónarmiðið um aukið fjárhagslegt öryggi lántakenda. Breytilegum vöxtum fylgi ákveðin áhætta fyrir lántakendur þar sem greiðslubyrði geti hækkað umtalsvert á skömmum tíma með hækkandi vaxtastigi. Fimm ára binding vaxta takmarki þannig áhættu lántaka varðandi þróun vaxta á því tímabili.
 
Óverðtryggð lán séu góður kostur fyrir þá sem ráða við þyngri greiðslubyrði en fylgi hefðbundnum verðtryggðum lánum. Einn helsti kostur þeirra umfram verðtryggð lán sé, að eignamyndun verður umtalsvert hraðari með óverðtryggðum lánum en með verðtryggðum lánum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert