Þórunn hættir á þingi

Þórunn Sveinbjarnardóttir.
Þórunn Sveinbjarnardóttir. mbl.is

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hættir á þingi á mánudag. Þórunn tilkynnti félögum sínum í þingflokki Samfylkingarinnar í dag að hún ætlaði að segja af sér þingmennsku á mánudag. Hún er formaður þingflokks Samfylkingarinnar og fyrrverandi umhverfisráðherra.

„Ég held áfram pólitísku starfi í þágu kvenfrelsis, umhverfisverndar og jafnaðarstefnu innan Samfylkingarinnar en ákvörðun mín um að láta af þingmennsku eftir hafa fjórum sinnum hlotið kosningu er endanleg og tekin eftir vandlega íhugun.

Í umboði stuðningsfólks jafnaðarstefnunnar hef ég starfað í stjórnarandstöðu, í stjórnarliði, sem ráðherra og formaður þingflokks. Nú er komið  að því fyrir mig að hafa vistaskipti og huga að nýjum viðfangsefnum. Á þessum tímamótum  er mér efst í huga þakklæti til samferðafólks og félaga í Samfylkingunni frá stofnun hennar," segir í yfirlýsingu frá Þórunni.

Varamaður Þórunnar er Lúðvík Geirsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert