Þingmenn gagnrýna tolla á búvörum

Nautakjöt kom til tals í umræðu um tolla á innfluttar …
Nautakjöt kom til tals í umræðu um tolla á innfluttar búvörur á Alþingi í dag. mbl.is

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og fleiri þingmenn gagnrýndu Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fyrir breytingar á fyrirkomulagi tolla við innflutning á búvörum við umræðu um tollamál og matvælaöryggi í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og vísaði meðal annars til álits umboðsmanns Alþingis þar sem fram koma efasemdir um lögmæti breytinga á verðtollum búvara í magntolla. Landbúnaðarráðherra sagði að álitið væri í skoðun hjá starfshópi fimm ráðuneyta.

Þorgerður Katrín sagði að ráðherra hefði með þessum breytingum hrundið af stað umræðu sem skipað hefði bændum og neytendum í andstæðar fylkingar. Landbúnaðurinn væri nú að ósekju kominn í varnarstöðu í stað þess að njóta sóknartækifæranna sem hann hefði.

Vilja endurskoða kerfið

Þingmenn Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir og Magnús Orri Schram, og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, lögðu til að landbúnaðarkerfið yrði endurskoðað. Magnús Orri sagði að rök fyrir matvælaöryggi stæðust ekki því landbúnaðarframleiðslan myndi stöðvast um leið og lokaðist fyrir kaup aðfanga frá útlöndum. Það þarf að opna kerfið og losa bændur undan ánauðinni, sagði Magnús Orri.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, benti á að ríki um allan heim vernduðu og styddu matvælaframleiðslu sína á ýmsum stigum, meðal annars með tollum á innflutning. Það ætti meðal annars við um Evrópusambandið. Það má alls ekki koma upp sú staða að við fórnum matvælaframleiðslunni fyrir skammtímagróða, sagði Höskuldur og taldi fæðuöryggi mikilvægara fyrir Íslendinga en flestar aðrar þjóðir.

Jón Bjarnason sagði að fæðuöryggi þjóðarinnar væri hluti af sjálfstæði hennar. Þótt þjóðin væri háð erlendum aðföngum væri þó rúmlega 50% af neyslu hennar innlend framleiðsla, og hún væri mikilvæg. Þá benti ráðherra á að greiðsluafkoma þjóðarinnar væri ekki með þeim hætti að ástæða væri til að opna fyrir takmarkalausan innflutning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert