Vilja viðskiptaþvinganir gegn Íslandi

Hvalbátarnir Hvalur 6 og Hvalur 7 hafa nú verið fluttir …
Hvalbátarnir Hvalur 6 og Hvalur 7 hafa nú verið fluttir úr Reykjavíkurhöfn í fjöruna í Hvalfirði en bátarnir hafa ekki verið notaðir áratugum saman. mbl.is/Eggert

Hópur umhverfisverndarsamtaka hvatti bandarísk stjórnvöld í dag til þess að beita Íslendinga viðskiptaþvingunum til að knýja þá til að hætta hvalveiðum.

Á vefnum MarketWatch, sem Wall Street Journal rekur, er haft eftir Allan Thornton, forseta samtakanna Environmental Investigation Agency, að Íslendingar hafi flutt út 133 tonn af hvalkjöti í júlí þrátt fyrir að Bandaríkjastjórn hafi hótað að beita viðskiptaþvingunum.

„Það er lína í sandinum og Ísland hefur farið yfir hana,“ hefur vefurinn eftir Thornton. „Það er ekki hægt að stöðva þennan umhverfisglæp nema Bandaríkin hætti að flytja inn fisk frá sjávarútvegsfyrirtækinu sem tengist fyrirtækinu sem stundar hvalveiðarnar.“

Á vef Hagstofunnar kemur fram, að tæp 134 tonn af frystum hvalafurðum voru flutt til Japans í júlí og var fob-verð tæpar 135 milljónir króna. Engar veiðar á langreyði hafa verið í sumar en Hvalur hf. hefur vísað til slæmra markaðsaðstæðna í Japan vegna náttúruhamfaranna þar í mars. 51 hrefna hefur verið veidd í sumar en það kjöt fer allt á innanlandsmarkað.

Gary Locke, viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, gaf út svonefnda staðfestingarkæru í júlí á þeirri forsendu að Ísland græfi undan friðunarmarkmiðum Alþjóðahvalveiðiráðsins með því að leyfa hvalveiðar í atvinnuskyni.  

Barack Obama Bandaríkjaforseti þarf að tilkynna Bandaríkjaþingi fyrir 17. september hvort hann hyggist grípa til aðgerða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert