Ásókn í auðlindir landsins

Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar.
Ómar Ragnarsson formaður Íslandshreyfingarinnar. mbl.is/Heimir Bergmann

Aðalfundur Íslandshreyfingarinnar samþykkti ályktun þar sem segir að ásókn í takmarkaðar auðlindir landsins með tilheyrandi óafturkræfum spjöllum á dýrmætum náttúruverðmætum hafi aldrei verið meiri en nú vegna þess að nú sé kreppan notuð sem skálkaskjól.  

Aðalfundur Íslandshreyfingarinnar var haldinn fyrir helgi.  Í stjórn voru kjörin:  Ómar Þ. Ragnarsson formaður, Margrét Sverrisdóttir varaformaður,  Sólborg Alda Pétursdóttir gjaldkeri, Daníel Helgason formaður fjármálaráðs og Snorri Sigurjónsson.  

Aðalfundurinn fagnaði þeim áfanga sem náðst hefur varðandi Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.  „Virkjanaaðilar sækja nú hart fram í krafti yfirburða fjármagns og aðstöðu til að fá frumniðurstöðum röðunar virkjanakosta í rammaáætlun breytt sér í hag.     

Gríðarlegt verkefni bíður því náttúruverndarfólks varðandi upplýsingaöflun um alla þessa kosti og athugasemdir við þá, og skorar aðalfundurinn á samtök þeirra að snúa bökum saman og sameina krafta sína í því mikla verki sem framundan er.  

Meðal annars þarf að skerpa á þeirri kröfu að við virkjanir sé ekki stunduð rányrkja og ágeng nýting, sem uppfyllir ekki skilyrði sjálfbærrar þróunar og brýtur gegn jafnrétti kynslóðanna, en sú er raunin í mörgum virkjanakostum, sem til stendur að gefa grænt ljós á.“

Íslandshreyfingin lýsti jafnframt yfir stuðningi við ákvæði í frumvarpi Stjórnlagaráðs um sjálfbæra þróun og að auðlindirnar til lands og sjávar og dýrmætustu náttúru- og menningarverðmætin séu þjóðareign sem aldrei megi selja né veðsetja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert