Vísað frá vegna ágalla á rannsókn

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur vísað frá dómi máli á hendur karlmanni sem ákærður var fyrir líkamsárás. Að sögn dómara gaf misræmi í framburði fórnarlambs og vitna hjá lögreglu tilefni til frekari rannsóknar. Slíkir ágallar þóttu á málinu að annað þótti ekki koma til greina en frávísun.

Ákært var fyrir líkamsárás í júní 2010 en þá hafi karlmaður ruðst inn á heimili annars og slegið hann ítrekað í andlitið og á líkama og síðan sparkað í andlit hans er hann lá á gólfinu, með þeim afleiðingum að sauma þurfti 4 spor á höfði auk þess að hann hlaut yfirborðsáverka víða.

Í niðurstöðu úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness segir að í skýrslu mannsins sem ráðist var á hjá lögreglu komi fram að þrír menn hefðu ruðst inn til hans og þeir haft vin hans með sér. Maðurinn sagði að einn þessara þriggja hefði verið ákærði í málinu og hann hefði ráðist á sig, en hinir mennirnir tveir hefðu ekkert haft sig í frammi.

Framburður vinarins og fyrrverandi sambýliskonu fórnarlambsins var hins vegar á annan veg. Þau lýstu því að tveir menn hefðu haft sig mest í frammi og ráðist á manninn með höggum og spörkum. „Vegna misræmis í framburði [fórnarlambs og vitna] var fullt tilefni til þess að taka nánari skýrslu af [fórnarlambinu], en það var ekki gert. Þá gaf fyrirliggjandi áverkavottorð tilefni til nánari rannsóknar, en í því segir að [fórnarlambið] hafi komið á bráðadeild 31. maí en ekki 2. júní og hann lýsti því fyrir lækni að hann hefði m.a. fengið bjórflösku í höfuðið. Enn fremur var ástæða til að grennslast nánar fyrir um það hver hafi verið þriðji [maðurinn sem ruddist inn],“ segir í úrskurðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert