Erfiðar viðræður framundan

Aðildarviðræður við Evrópusambandið halda áfram en stóru málin eru enn …
Aðildarviðræður við Evrópusambandið halda áfram en stóru málin eru enn eftir. Ljósmynd/Eric Chan

Erfiðar samningaviðræður eru framundan milli Íslands og Evrópusambandsins á sviðum sem varða m.a. frjálsa för fjármagns, sjávarútvegsmál, landbúnað og byggðaþróun. Þetta kemur fram í framvinduskýrslu framkvæmdastjórnar ESB sem birt var í dag.

Framvinduskýrslur eru birtar árlega fyrir þau lönd sem hafa formlega stöðu umsóknarríkis að ESB og er þetta í annað sinn sem framkvæmdastjórnin birtir slíka skýrslu um Ísland. Þar er staða Íslands greind og mat lagt á getu landsins til að mæta þeim skuldbindingum sem fylgja aðild.

Í skýrslunni sem gefin var út í dag kemur m.a. fram að framfarir hafi náðst í aðildarviðræðum og að Ísland mæti enn sem fyrr þeim pólitísku skilyrðum sem sett eru fyrir aðild. Á efnahagssviðinu segir að Ísland teljist vera virkt markaðshagkerfi sem eigi að vera samkeppnishæft á markaði, að því gefnu að haldið verði áfram að vinna úr þeim veikleikum sem séu til staðar.  Á heildina litið sé Ísland vel í stakk búið að mæta lagalegum kröfum ESB.

Í skýrslunni er hinsvegar einnig tekið fram að enn sé Icesave deilan óleyst. Þá megi búast við „erfiðum samningaviðræðum í ýmsum lykilmálaflokkum, s.s. hvað varðar frjálsa för fjármagns, sjávarútveg, landbúnað og byggðaþróun, umhverfismál þ.á.m. hvalveiðar, skatta- og tollamál, svæðisstjórnun og fæðuöryggi“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert