Ber „sjúkdómseinkenni" eldgosa

Hverir suður af Kleifarvatni. Sveifluháls liggur til norðausturs.
Hverir suður af Kleifarvatni. Sveifluháls liggur til norðausturs. Rax / Ragnar Axelsson

Fyrr eða síðar mun eldvirknitímabil á Reykjanesskaga hefjast að nýju og fleiri eldgos verða í námunda við höfuðborgina. Þetta hefur AP fréttastofan eftir Páli Einarssyni jarðeðlisfræðingi í dag. AP gerir eldvirkni á Íslandi að umfjöllunarefni og varar við mögulegum afleiðingum eldgoss í Kötlu.

Reykjanesskagi liggur eftir flekaskilunum og þar hafa eldgos verið tíð en þau virðast koma í hrinum sem standa í nokkur hundruð ár, með hléum sem geta varað í allt að þúsund ár. Síðasta eldgos varð á Reykjanesskaga um 1240 og hafa eldgos því ekki verið viðvarandi ógn á höfuðborgarsvæðinu.  Vísindamenn fylgjast hinsvegar grannt með þróun mála á Reykjanesi líkt og annars staðar þar sem skjálftavirkni er til staðar.

Frá árinu 2009 hefur tvisvar sinum orðið landris í Krýsuvík á Reykjanesskaga, síðara risið hófst að vori 2010 og hefur ekki hjaðnað síðan. Páll Einarsson segir hugsanlegt að þetta sé vegna jarðhitabreytinga í jarðskorpunni, en kvikusöfnun þarna á einhverju dýpi sé líka möguleiki. „Sú spurning hefur alltaf verið bak við eyrað hvernig það kemur til með að lýsa sér þegar næsta gostímabil hefst þarna. Þarna eru mælingar í gangi og eitt af þeim sjúkómseinkennum sem við leitum að er landris, þannig að þetta er eitthvað sem við þurfum að hafa í huga,“ segir Páll. 

Enginn samanburður er hinsvegar til staðar enda var síðasta gostímabil í kringum landnám. „Reynsluna vantar og þá verðum við að reyna að treysta á skilning á því hvernig hlutirnir eru líklegir til að haga sér. Og þetta er eitt af sjúkdómseinkennunum, en það er enginn vissa um að hvað gerist,“ segir Páll.

Enginn vissa er heldur um hvað muni gerast í Kötlu en ljóst er að margir fylgjast með þróun mála þar, þ.á.m. AP fréttastofan sem fjallar í dag um hugsanlegar afleiðingar Kötlugoss á bæði nærsveitir og umheiminn.  Páll segir að Katla sé búin að haga sér undarlega mjög lengi. Enn er stöðug skjálftavirkni inni í öskjunni en það eru smáir skjálftar sem koma í hrinum. „Hún er til alls vís og er ekkert víst að hún gefi meiri fyrirvara á sér en þennan,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert