Leitar skýringa hjá Háskólanum

Hrafnseyri við Arnarfjörð.
Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að leitað yrði skýringa því hvers vegna Háskóli Íslands auglýsti nýja stöðu prófessors með öðrum hætti en þeim sem Alþingi samþykkti í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tók málið upp í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og vísaði til þess að í samþykkt Alþingis um prófessorstöðu, tengdri nafni Jóns Sigurðssonar, hefði verið gert ráð fyrir að starfsstöð prófessorsins yrði á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns. 

Jóhanna hefði áréttað þessi sjónarmið í ræðu á Hrafnseyri 17. júní í sumar og sagt, að sá sem gegna myndi stöðinni skyldi hafa fasta búsetu á Ísafirði eða nágrenni og hafa um kennslu og rannsóknir starfsskyldur og samstarf við Rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum og Háskólasetur Vestfjarða.

Þann 17. september auglýsti Háskóli Íslands stöðuna lausa til umsóknar og í auglýsingunni segir, að gert sé ráð fyrir starfsstöð á tveimur stöðum, á Hrafnseyri og Háskóla Íslands. Sagði Einar að þetta væri í andstöðu við vilja Alþingis sem væri grafalvarlegt mál.

Einar sagði eðlilegt, að forsætisráðherra krefðist þess að háskólinn drægi auglýsinguna til baka en með henni væri verið að koma í bakið á þingheimi og ómerkja fyrirheit forsætisráðherra, sem gefin voru á Hrafnseyri á 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert