Orðlaus yfir stuðningi víða að

Hrafn Þór Hauksson með foreldrum sínum, Oddnýju Lísu Ottósdóttur og …
Hrafn Þór Hauksson með foreldrum sínum, Oddnýju Lísu Ottósdóttur og Hauki Þór Smárasyni.

Söfnun hefur verið hrundið af stað fyrir unga foreldra, þau Oddnýju Lísu Ottósdóttur og Hauk Þór Smárason, en tæplega sjö vikna gamall sonur þeirra, Hrafn Þór, veiktist alvarlega fyrir um tíu dögum.

 Þau eru búsett á Akureyri en hafa þurft að dvelja í Reykjavík undanfarna viku og er ekki vitað hvenær litli drengurinn verður nógu hress til að þau geti snúið aftur heim.

„Hann var búinn að vera hraustur og hafði dafnað vel en þarsíðasta laugardag, um nóttina, fer hann í öndunarstopp og pabbi hans verður vitni að því,“ segir Oddný. Hrafn Þór var fluttur í snatri á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann gekkst undir ýmsar rannsóknir og voru mænuvökvasýni og blóðprufur tekin auk röntgenmynda af lungunum. „Læknarnir töldu líklegt að honum hefði svelgst á mjólk og misst þannig andann en þegar líður á daginn byrjar hann að fá flogaköst.“ Fleiri blóðprufur voru teknar og Hrafn Þór settur í segulómun. Illa gekk að halda krömpunum niðri og því var ákveðið að senda hann suður á Barnaspítala Hringsins á mánudagsmorgninum.

Greindur með veirusýkingu

Á barnaspítalanum gekkst Hrafn Þór undir enn fleiri rannsóknir til að reyna að ákvarða orsök krampanna og hvort öndunarstoppið hefði orsakað þá eða einfaldlega verið afleiðing þeirra. Ástand hans varð stöðugt og var hann þá látinn liggja á barnadeildinni en þegar kramparnir byrjuðu aftur var hann fluttur á vökudeildina.

Læknar hafa greint Hrafn Þór með veirusýkingu sem myndar bólgur við heila og bregst hann vel við meðferð. „Fyrstu fimm dagarnir voru krítískir. Hann vaknaði ekki, drakk ekki heldur var í krömpum. Á sunnudaginn fannst hins vegar virkilega mikill munur á honum og þetta fór allt að líta betur út,“ segir Oddný og bætir við að lyfjameðferð sé það skammt á veg komin að ekki sé farið að ræða um hvenær hægt verði að útskrifa drenginn.

Reyna að finna bestu fjárhagslegu lausnina

Oddný er í fæðingarorlofi en maður hennar Haukur hóf aftur störf 1. október. Hún viðurkennir að það sé dálítið basl að ákveða næstu skref, það sé dýrt að vera frá vinnu og því séu þau að reyna að finna bestu fjárhagslegu lausnina. „Við erum að skoða möguleikana sem eru í boði,“ segir Oddný að lokum.

MÚTTUR Á AKUREYRI SÝNA SAMHUG Í VERKI

Studd af vinum og vandalausum

Um 250 verðandi og núverandi mæður á Akureyri eru meðlimir í Facebook-hópnum „Múttur á Akureyri“. Stofnandi hópsins, Signa Hrönn Stefánsdóttir, opnaði styrktarreikning fyrir Hrafn Þór í því skyni að sýna samhug kvennanna í hópnum í verki.

Aðspurð segir Oddný að fjölskyldan hafi fundið fyrir gríðarmiklum stuðningi frá vinum og ættingjum á Akureyri, auk fjölda annarra. „Maður á eiginlega ekki til orð. Við finnum fyrir miklum samhug og stuðningi frá fólki sem við þekkjum ekki einu sinni. Þessi reikningur var stofnaður og á einum sólarhring voru fréttir af honum komnar um allt netið.“

Þeir sem vilja styrkja ungu fjölskylduna geta lagt peninga inn á reikning 1145-05-200643, kennitala 040987-4289.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert