„Þingmennirnir komnir fram“

Þann 6. október sl. mætti fjölmenni á Básaskersbryggju til að …
Þann 6. október sl. mætti fjölmenni á Básaskersbryggju til að krefjast bættra samgangna.

Þingmenn Suðurkjördæmis munu funda eftir helgi með bæjarfulltrúum í Vestmannaeyjum og íbúum sem vilja stuðla að bættum samgöngum til og frá Eyjum. Fundurinn verður lokaður.

Nýverið auglýsti áhugafólk um bættar samgöngur eftir öllum 12 þingmönnum kjördæmisins vegna neyðarástands í samgöngumálum í bæjarfélaginu. Í heilsíðuauglýsingu, sem birtist í Morgunblaðinu, var sagt að þingmennirnir væru týndir.

Þá mætti fjölmenni á samstöðufund um samgöngumál á milli lands og Eyja sem haldinn var á Básaskersbryggju í byrjun október.

„Þeir [þingmennirnir] hafa sem betur fer komið fram. Þetta virðist hafa haft áhrif,“ segir Sigurmundur Einarsson, sem rekur Viking Tours í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is, en hann er einn þeirra sem stóð fyrir samstöðufundinum.

Staðan óviðunandi

Sigurmundur segir að annar hópur hafi staðið að auglýsingunni en hóparnir, sem yfir 700 manns standi á bak við, hafi síðan tekið höndum saman og ætli að mæta á fundinn, sem verður haldinn í Eyjum nk. mánudag.

„Við viljum fá þessa aðila sem sjá um samgöngumál til Eyja með okkur í að lagfæra hluti. Þetta eru einfaldar kröfur. Við viljum samgöngur í lag til Eyja. Við viljum að Landeyjahöfn sé opin allt árið,“ segir Sigurmundur og bætir við að hóparnir vilji jafnframt fá ferju sem geti siglt á milli lands og Eyja allt árið.

Núverandi ástand sé óviðunandi og samgöngumál Eyjamanna í dag séu í raun svipuð því sem hafi verið uppi á teningnum fyrir 40 árum.

Aðspurður segir Sigurmundur að von sé á öllum 12 þingmönnum Suðurkjördæmis á fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert