Aukið vægi endurnýjanlegra orkugjafa

Davíð Stefánsson kveðst sannfærður um að virkjun vinds muni spila …
Davíð Stefánsson kveðst sannfærður um að virkjun vinds muni spila mikilvægt hlutverk á Íslandi í framtíðinni. Á myndinni má sjá vindmyllur og rafmagnslínur í Danmörku. Reuters

Davíð Stefánsson, framkvæmdastjóri ráðgjafar hjá Reykjavík Geothermal, segir að ef opinber stuðningur sé nægur, þá verði endurnýjanlegir orkugjafar æ mikilvægari hluti orkukerfanna.

Þetta kom fram í erindi sem Davíð flutti á Nýsköpunarþinginu í morgun, en erindi hans bar yfirskriftina „Endurnýjanleg orka - helstu áskoranir“.

Hann segir að það sé enginn vafi á því að orkumál verði eitt að stóru verkefnum framtíðarinnar. Aukin orkuþörf, umbreyting orkunýtingar og þróun og uppbygging endurnýjanlegra orkugjafa séu allt risavaxin verkefni.

Davíð segir að vöxtur endurnýjanlegra orkugjafa sé mikill. Meginhvatinn liggi í beinum stuðningi stjórnvalda við þessa þróun.

Hann segir að Alþjóðaorkustofnunin (International Energy Agency) hafi bent á í ritinu World Energy Outlook 2010, að áætlað megi að þessi stuðningur aukist úr 57 milljörðum Bandaríkjadala frá árinu 2009 í 205 milljarða dala árið 2035. En hærra verð á jarðefnaeldneyti og lægri fjárfestingarkostnaður muni einnig ýta undir vöxt vistvænna orkugjafa.

Davíð bendir hins vegar á að helsti þröskuldur endurnýjanlegra orkugjafa liggi í verðinu. Enn sem komið er sé kostnaðurinn of hár. Virkjun sólar, vinds og sjárvarfalla sé einfaldlega of dýr miðað við kol og gas.

Mikilvægt að styðja við fjölbreytnina

Davíð segir aftur á móti að þróun þessara mála feli í sér ýmis tækifæri fyrir Íslendinga, en þar skipti stuðningur stjórnvalda miklu.

Hann telur að menntakerfið, rannsóknar- og stoðkerfið eigi að styðja við fjölbreytnina, en ekki eingöngu jarðvarma. Það sé mikilvægt að sækja þekkingu á sem flestum sviðum vistvænna orkugjafa. Það eigi að styðja við „græðlingana-afhafnaskáldin stórhuga,“ eins og Davíð orðar það.

Þá telur hann að orkufyrirtæki eigi að færa sig nær tækifærum á þessum sviðum. Vindorku, sjávarfallaorku, margvíslegum orkuberum, lífmassa o.s.frv. Það eigi að safna í þekkingarbrunninn.

„Ég er sannfærður um að virkjun vinds mun til að mynda spila mikilvægt hlutverk hér í framtíðinni,“ segir Davíð.

Þá segir hann að stjórnvöld eigi að styðja við „fjölnýtingu jarðhita“. Sem dæmi um mikilvæg verkefni á því sviði megi nefna framþróun kælitækni með jarðvarma. Gangi það vel eftir sé þetta mjög stór markaður. „Spurning um orkuþróunarsetur,“ segir Davíð.

Loks segir nefnir hann tvö verkefni sem séu gríðarlega stór á sviði orkunýtingar. Annars vegar flutningur raforku til Evrópu um sæstreng og hins vegar umbreyting bílaflotans.

Hann kveðst fagna allri umræðu um sæstreng. Meiri virðisauki og orkuöryggi. Þá segir hann að umbreyting bílaflotans sé verkefni sem verði að leggja meira til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert