Greiði Kaupþingi 2,6 milljarða

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á kröfu slitastjórnar Kaupþings um að rift verði yfirlýsingu Hreiðars Más Sigurðssonar, þáverandi forstjóra Kaupþings um að fella niður persónulega ábyrgð þáverandi starfsmanns bankans vegna lána sem hann fékk til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi.

Er Ingvar Vilhjálmsson, sem var einn af framkvæmdastjórum Kaupþings, dæmdur til að greiða bankanum rúma 2,6 milljarða króna. Alls var um að ræða sjö lánasamninga sem gerðir voru árin 2005, 2006 og 2007.

Deilt var um þá ráðstöfun fyrir dómnum, að fella í september 2008 niður persónulega ábyrgð Ingvars á lánasamningunum og jafnframt að að fella niður persónulega ábyrgð Ingvars á lánunum þann 7. október 2008 og færa hana sama dag yfir á einkahlutafélagið Ingvar Vilhjálmsson ehf. 

Ekkert annað en gjöf

Í niðurstöðu sinni segir Símon Sigvaldason, héraðsdómari, m.a. að Ingvar hafi þann 25. september 2008 borið persónulega ábyrgð á greiðslu fjárskuldbindingar sem á þeim degi nam alls 2.642.617.028 krónum. Með yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra stefnanda þennan dag hafi sú ábyrgð verið felld niður. Af því leiði, að eign Kaupþings rýrnaði með samsvarandi hætti og Ingvar auðgast í réttu hlutfalli við það.

Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu dómsins, að Ingvari hafði ekki verið lofað algjöru skaðleysi af hlutabréfakaupum í Kaupþingi verði ekki litið á yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra bankans sem annað en gjöf í skilningi laga um gjaldþrotaskipti. 

Málamyndagerningur

Um flutning skuldbindinganna yfir í einkahlutafélag Ingvars segir dómarinn, að nýir lánssamningar hafi verið gefnir út þann 7. október 2008 þar sem félagið Ingvar Vilhjálmsson ehf. samþykkti að takast á hendur sem lántaki allar skuldbindingar samkvæmt lánssamningum við Ingvar. Jafnframt skyldi felld niður skuldbinding Ingvars.

Segir dómarinn að í málinu liggi frammi tilkynningar Arion banka til Ingvars Vilhjálmssonar ehf. um gjalddaga lánanna. Innheimtuviðvaranir hafi síðar verið sendar einkahlutafélaginu.

Nafni Ingvars Vilhjálmssonar ehf. var síðar breytt í k08 ehf. Í málinu liggi frammi tilkynningar Arion banka til k08 ehf. um gjalddaga lánanna. Óumdeilt sé, segir dómarinn, að engar afborganir voru greiddar af lánununum og var bú k08 ehf. tekið til gjaldþrotaskipta 6. júlí í sumar. Virðist engar þær eignir hafa verið til í Ingvari Vilhjálmssyni ehf. og síðar k08 ehf., að til stæði að einkahlutafélagið myndi greiða af þeim lánum sem Ingvar tók hjá Kaupþingi.

Af því verði ekki annað ráðið en að skuldaraskiptin hafi verið til málamynda eingöngu gerð í þeim tilgangi að losa Ingvar undan persónulegri ábyrgð á lánssamningum. Er ráðstöfun Kaupþings frá 7. október 2008 því einnig rift. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert