Allir horfnir til annarra starfa

Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði
Héraðsdómur Reykjaness í Hafnarfirði Ómar Óskarsson

Skipverjarnir fjórir sem í vikunni voru dæmdir fyrir að brjóta gegn 13 ára pilti í tíu daga veiðiferð á netabátnum Erlingi KE-140 eru allir farnir til annarra starfa. Þetta fékkst staðfest hjá útgerð bátsins, Saltveri. Verjandi mannanna segir ekkert ákveðið með áfrýjun málsins.

Einn skipverjinn var dæmdur í 3 mánaða skilorðsbundið fangelsi, einn í 2 mánaða og tveir í 45 daga skilorðsbundið fangelsi. Þeir játuðu sök að hluta en gerðu lítið úr málinu og eftir einum er haft að þetta hafi verið „svona væg busun“. Menn hafi verið að klæmast, en það hefði ekki verið neitt alvarlegt. Þá hefðu þeir riðlast hver á öðrum og gjarnan verið slegið létt í rass þeirra, sem beygðu sig niður en það hafi ekki verið neitt kynferðislegt.

Í dómnum virðist sem pilturinn hafi verið við vinnu á bátnum, en faðir hans var skipverji um borð. Réttargæslumaður hans segir það hins vegar rangt. Hann hafi aðeins farið með föður sínum í ferðina, hafi ekki hlotið laun eða haft vinnuskyldu. Ekki sé þó útilokað að hann hefði tekið þátt í einhverjum störfum, til að prufa.

Skipstjórinn ekki var við neitt

Í dómnum, sem fjölskipaður héraðsdómur kvað upp, er m.a. vísað í vottorð sálfræðings þar sem segir, að sjóferðin hafi tekið verulega á drenginn. Hann hafi verið sjóveikur allan tímann og grín gert að honum vegna þess. Hann hafi verið niðurlægður með orðum og gerðum og hann hafi þurft að þola ýmsa áreitni sem hafi bæði meitt hann, niðurlægt og gert hann verulega hræddan, jafnvel um líf sitt. Hann hafi stöðugt þurft að vera á varðbergi og viðbúinn hverju sem væri, en það væru mjög kvíða­vekjandi aðstæður.

Meðal þeirra sem báru vitni fyrir dómi var skipstjóri í umræddri ferð. Sá kvaðst ekki hafa séð menn „riðlast eða slá í rassinn hver á öðrum“. Þá hafi hann aðeins heyrt af því eftir að komið var í land að skipverjar hefðu verið óþarflega grófir við drenginn. Það hafi hann heyrt frá móður drengsins, sjálfur hefði hann ekki kvartað á meðan ferðinni stóð.

Finna má á samfélagsvefnum Facebook síðu tileinkaða Erlingi KE-140 þar sem skipverjar hafa sett inn efni undanfarin ár. Síðast var efni sett inn á síðasta ári. Þar má meðal annars finna myndband af skipverjum bera afturenda sína þegar farþegaferjan Herjólfur siglir hjá og eins ljósmynd af sjónvarpi í skipinu þar sem í gangi er afar gróf klámmynd. 

Framkvæmdastjóri Saltvers vildi lítið tjá sig um málið þegar eftir því var leitað, en boðaði að útgerðin myndi senda frá sér tilkynningu um málið í dag. Hann staðfesti þó að mennirnir væru horfnir til annarra starfa. 

Þá sagðist verjandi mannanna ekki hafa farið yfir dóminn með skjólstæðingum sínum og því hefði engin ákvörðun verið tekin um áfrýjun málsins til Hæstaréttar.  

Farið eftir reglum dómstólaráðs

Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið, er að nöfn mannanna skuli ekki verið birt í dómnum. Réttargæslumaður piltsins segir þetta vera í samræmi við reglur dómstólaráðs um birtingu héraðsdóma á vefsvæði héraðsdómstólanna. Í þriðju grein þeirra segir, að ef ákært sé fyrir kynferðisbrot skuli gæta nafnleyndar um brotaþola og aðra sem geta persónugreint hann. Þá skal þess gætt að má út úr dómi aðrar upplýsingar sem gera kleift að persónugreina viðkomandi, svo sem heimilisföng og staðanöfn.

Dómurinn

Níddust á 13 ára dreng

Kannast ekki við busanir

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert