Fengu verðlaun Velferðarsjóðs barna

Nemendur á leikskólanum Tjarnarborg tóku lagið í tilefni dagsins.
Nemendur á leikskólanum Tjarnarborg tóku lagið í tilefni dagsins.

Hrefna Haraldsdóttir og Stefán Hreiðarsson fengu í dag Barnamenningarverðlaun Velferðarsjóðs barna 2011. Verðlaunin voru veitt í Iðnó í sjöunda sinn.

Hrefna Haraldsdóttir er foreldraráðgjafi hjá Sjónarhóli og Stefán Hreiðarsson, er forstöðumaður Greiningar og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Þau fengu verðlaunin  fyrir framúrskarandi framlag í þágu velferðar barna.

Verðlaunin nema 1 milljón króna á hvorn aðila sem nýtast munu til áframhaldandi verkefna.   Þá hlýtur Mæðrastyrksnefnd eina milljón króna í styrk til fatakaupa fyrir jólin, Dyngjan, áfangaheimili fyrir konur og börn fær eina milljón króna en Hjálparstofnun kirkjunnar fær tvær milljónir til jólaaðstoðar og miðakaupa í leikhús og aðra listviðburði. Alls námu úthlutanir í dag því 6 milljónum króna.

Velferðarsjóður barna var stofnaður af Íslenskri erfðagreiningu fyrir tíu árum síðan með það að markmiði að hlúa að velferð og hagsmunamálum barna á Íslandi, m.a. með fjárframlögum til heilbrigðis-, velferðar- og menntamála og samtaka og félaga á Íslandi sem hafa velferð og lækningar barna að megintilgangi. Sjóðurinn er sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi en á áratug hefur tæpum 700 milljónum króna verið úthlutað úr honum til margvíslegra verkefna. Styrkir eru veittir sex til átta sinnum á ári, en heildarupphæðin árið 2011 nemur um 30 milljónum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert