Hafa hag af því að sjúkrahúsið rísi

Gestur gagnrýnir hugmyndir um að reisa nýtt sjúkrahús við Hringbraut …
Gestur gagnrýnir hugmyndir um að reisa nýtt sjúkrahús við Hringbraut í Reykjavík. Júlíus Sigurjónsson

Gestur Ólafsson, arkitekt og skipulagsfræðingur, segir hluta fundarmanna á nýafstöðnum aðalfundi Arkitektafélags Íslands hafa hag af því að nýtt sjúkrahús rísi við Hringbraut. Tillaga um að gerð verði staðarvalsgreining á sjúkrahúsi var fellt á fundinum.

„Ég lít á það sem borgaralega skyldu mína að benda á það ef mér finnst fólk vera að gera miklar skipulagsvitleysur, fyrir utan að vera fv. formaður Skipulagsfræðingafélags Íslands,“ segir Gestur Ólafsson sem bar ásamt öðrum upp tillögu á aðalfundi Arkitektafélags Íslands í síðustu viku um að gerð yrði „forsvaranleg staðarvalsgreining“ á staðsetningu nýs sjúkrahúss.

„Tillagan hlaut ekki meirihlutafylgi, hugsanlega vegna þess að margir fundarmenn eru á fullu við að teikna nýjan spítala við Hringbraut,“ segir Gestur og hvetur til þess að fagmenn komi að greiningu á heppilegustu staðsetningunni fyrir sjúkrahúsið.

Verði niðurstaða þeirra sú að best fari á því að sjúkrahúsið rísi við Hringbraut muni hann og flutningsmenn tillögunnar una því, þótt sú niðurstaða sé afar ólíkleg.

Alþingi framkvæmi greiningu

Gestur hvetur til þess að Alþingi láti framkvæma greiningu af þessum toga.

„Það er búið að setja á þriðja milljarð í vangaveltur og alþjóðalega samkeppni um hönnun sjúkrahússins. Staðarvalsgreiningin hefði átt að fara fram í upphafi. Það þarf að vinna þessi mál í réttri og faglegri röð,“ segir Gestur og víkur að skorti á heildarstefnu í skipulagsmálum höfuðborgarsvæisins.

„Aðalskipulag Reykjavíkur hefur ekki verið endurskoðað í heild síðan 2001 og sama á við um Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins. Þá hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um staðsetningu flugvallarins. Því tel ég sem skipulagsfræðingur að Alþingi hafi ekki haft nægilegar forsendur til þess að ákveða að spítalinn skuli vera við Hringbraut eins og var gert með lögum nr. 64, 2010.

Það á að verja 50 til 100 milljörðum króna í byggingu sjúkrahússins af alamannafé og það skiptir okkur öll miklu hvernig að þessari framkvæmd er staðið. Við vitum hvernig fór með Hörpuna, en kostnaður fór þar upp úr öllu valdi.“

Annar ekki umferðarþunganum

Gestur rökstyður gagnrýni sína á staðarvalið meðal annars með tilvísun til umferðarþunga á höfuðborgarsvæðinu.

„Ef það á ekki að byggja vegartengingu yfir Elliðaárósa og göng í gegnum Öskjuhlíð næstu 5-10 ár, sem samtals eiga að anna um 80.000 bílum á sólarhring árið 2024 samkvæmt umferðarspá Svæðisskipulags, mun sú umferð bætast við þá umferð sem þegar er á Miklubraut.

Miklabraut flytur nú um 50.000 bíla á sólarhring og það þarf engan skipulagsfræðing til að gera sér í hugarlund hver útkoman verður þegar svo mikil umferð bætist við. Fyrirhugað sjúkrahús á líka að vera bráðasjúkrahús fyrir allt landið. Ef það tekur hálftíma að komast að sjúkrahúsinu þegar inn á höfuðborgarsvæðið er komið er vandséð hvernig sjúkrahúsið eigi að geta búið við það,“ segir Gestur.

Formaður AÍ: Einhverjir kunna að hafa hagsmuni

Aðspurður um fundinn segir Logi Már Einarsson, formaður Arkitektafélags Íslands, að þar hafi komið saman arkitektar með ólíkar skoðanir á framkvæmdinni.

„Auðvitað er það alltaf svo að í stórum hópum kunna einhverjir að hafa hagsmuni í báða vegu. Ég get fullyrt að enginn sem stjórnaði þessum fundi hafi haft hag af umræddri framkvæmd umfram aðra. Það kann að vera mikilvægt fyrir marga arkitekta að þetta verkefni haldi áfram. Það getur vel verið að einhver á fundinum vinni að verkefninu.“

Vísar til fyrri fundar um málið 

Logi Már segir að boðað hafi verið til aðalfundarins með venjubundnum hætti, auk fyrri fundar um málið.

„Við héldum almennan félagsfund um málið fyrir þrem vikum og á hann voru fengnir aðilar til að kynna verkefnið. Við höfðum verið margbeðin um að halda slíkan fund. Þar gafst mönnum tækifæri á að rökræða þessa hluti.“

Hann segir eðli tillögunnar, sem Gestur og félagar báru upp, kunna að eiga þátt í því að henni var hafnað á aðalfundinum í síðustu viku.

„Það var borin upp ályktun á fundinum sem var tæknileg og þess eðlis að það var ómögulegt fyrir þá sem voru viðstaddir að afgreiða hana á svo stuttum fundi,“ segir Logi Már Einarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert