Mótmæla skerðingu á kjörum eftirlaunaþega

mbl.is/Arnaldur

Stjórn Félags eldri borgara í Hafnarfirði mótmælir harðlega þeim skerðingum á kjörum eftirlaunaþega er felist í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2012. Einnig samþykktum á öðrum lögum um fjármál sem samþykkt hafi verið nú á síðustu dögum Alþingis, fyrir jólafrí.

„Við gerð síðustu kjarasamninga á almennum markaði gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu um ýmsa þætti, til lausnar kjaradeilunni.

Meðal annars hét ríkisstjórnin því, að eftirlaunaþegar myndu fá hliðstæðar hækkanir við laun þeirra lægst launuðu á vinnumarkaði.

Varla var blekið þornað á samningunum er ríkisstjórnin hóf svik sín við gefin loforð er hún ákvað að stað 10,3% hækkunar skyldu lægstu bætur eftirlaunaþega hækka um aðeins 6,5% og sumir bótaflokkar um 8,1%.

Ekki teljast þessar hækkanir hliðstæðar við 10,3% og því um svik ríkisstjórnarinnar að ræða við gefin loforð,“ segir Félag eldri borgara í Hafnarfirði í samþykkt sem var gerð á fundi félagsins í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert