Eins og að taka heilann úr ráðherranum

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ.
Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ. mbl.is/Eyþór

Ef allar rannsóknir og stefnumörkun í auðlindanýtingu og þær ríkisstofnanir sem sinna þeim verkefnum, verða færð frá sjávarútvegsráðuneytinu, verður það nánast að engu orðið. Þá verður búið að skilja á milli þess sem tekur ákvörðun um leyfilegan heildarafla, þ.e. sjávarútvegsráðherrans og upplýsinganna að baki þeirri ákvörðun. Hið sama gildir um allar þær ákvarðanir um svæðalokanir, bönn við notkun ákveðinna veiðarfæra og fleira slíkt sem sjávarútvegsráðherra tekur allan ársins hring.

Þetta segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ í tilefni af breytingunum sem nú er verið að gera á skipulagi stjórnarráðsins. Honum líst illa á breytingarnar og telur þær veikja atvinnulífið allt, ekki bara sjávarútveginn.

„Þetta jafngildir því að taka úr honum heilabúið,” segir Friðrik. „Sjávarútvegsráðherra hefur engin tæki og tól lengur. Það verður tekin af honum vitneskjan og þekkingin sem felst í rannsóknunum og klippt á milli hans og rannsóknarstofnunarinnar,” bætir hann við.

Umhverfisráðherrann mun ráða öllu í raun

Friðrik segir þá stöðu uppi allan ársins hring að sjávarútvegsráðherra þurfi að leita ráða hjá Hafrannsóknastofnuninni og fleiri stofnunum, en með breytingunum geti hann ekki spurt sömu stofnanir beint. Nú eigi umhverfis- og auðlindaráðuneyti að hafa öll tækin, allar rannsóknirnar og öll rökin sín megin og skuli gera tillögu um heildarafla. Þótt valdið verði formlega enn hjá sjávarútvegsráðherra verði mjög erfitt annað en að fara eftir tillögum umhverfisráðuneytisins.

Friðrik segir að engum hafi dottið í hug að skapa svona umgjörð um sjávarútveg í nágrannalöndunum og nær væri, í stað þess að leggja í reynd niður sjávarútvegsráðuneytið, að leggja niður umhverfisráðuneytið og færa verkefni þess til hinna atvinnuvegaráðuneytanna. Þannig eigi að undirstrika mikilvægi umhverfismálanna.

Aðspurður segir hann þetta engin öfugmæli. ,,Við teljum umhverfismálin vera eitt mikilvægasta atriðið varðandi auðlindanýtinguna, ef ekki það mikilvægasta. Þetta verður ekki skilið í sundur vegna þess að allar ákvarðanir sem ráðherra tekur, þær varða umhverfismál,” segir Friðrik.

Hann segir það líka spila inn í að í umhverfisráðuneytinu sé tilhneiging til friðunar sem ekki sé rökstudd. Sem dæmi nefnir hann að þar sé lagst gegn sjálfbærri nýtingu hvalastofna við landið, þó svo að engin rök séu gegn því, út frá umhverfismálum. „Þess í stað fer umhverfisráðherra þá skyndilega að tala um viðskiptasjónarmið,” segir Friðrik.

Of fáir ráðherrar með of mörg mál á sinni könnu

Burtséð frá þessu samspili umhverfismála og auðlindanýtingar segir Friðrik að það veiki mjög ráðuneytin hversu mörg þeirra eigi nú að fara á hendur fárra ráðherra.

„Við getum rétt ímyndað okkur þetta, iðnaður- ferðaþjónusta, efnahagsmál, verslun og þjónusta, allt á sömu hendi. Það skal enginn segja mér að þetta verði til þess að efla íslenskt atvinnulíf. Fókusinn hjá ráðherranum verður ekki sá sami og þegar hann er með færra undir,” segir Friðrik. Hann sé alveg sannfærður um að þetta veiki atvinnulífið, vegna þess að fordæmið sé nú þegar til, frá því þegar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti voru sameinuð. „Það er ærinn starfi fyrir einn mann að vera bara sjávarútvegsráðherra,” segir Friðrik.

Yfirgnæfandi meirihluti fólks í atvinnulífinu segir Friðrik að sé sammála honum um þetta. Þótt einhverjir hafi talið sjávarútveginn njóta þess að hafa sterkara ráðuneyti í sinni grein en aðrar greinar, þá væri nær að styrkja ráðuneyti allra atvinnuveganna sérstaklega, frekar en að veikja þau öll með því að steypa þeim saman í eitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert