Ætlar að skrifa um stjórnmálin

Kristrún Heimisdóttir.
Kristrún Heimisdóttir.

Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Árni Snæbjörnsson, ráðunautur og fyrrverandi aðstoðarmaður Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, misstu bæði vinnuna þegar ráðherrarnir tveir létu af embættum sínum á gamlársdagsmorgun.

Kristrún kvaðst ætla að njóta þess til að byrja með að geta tekið sér eitthvað frí, enda ekki getað tekið frí lengi og ekki farið í sumarfrí á nýliðnu ári. Hún gerði ráð fyrir að fara svo að vinna lögfræðistörf, bæði á vettvangi háskóla og annars staðar.

„Það er svo ljómandi gott að komast út úr pólitíska umhverfinu, sérstaklega eins og það er núna. Vinda ofan af sér alla þá togstreitu sem þar ríkir og hugsa um aðra hluti,“ sagði Kristrún. Hún sagðist hafa hugsað sér að nota næstu mánuði til þess að skrifa. En um hvað á að skrifa?

„Það er margt sem maður hefur frá að segja um stjórnmálin frá árinu 2007 sem maður hefur tekið þátt í,“ sagði Kristrún. Hún var spurð hvort hún ætlaði að keppa við metsöluhöfundana Arnald og Yrsu í bókaflóðinu um næstu jól.

„Ég segi það ekki – ég held að ég geti ekki verið með óvænt endalok, en það verður örugglega frá ýmsu að segja,“ sagði Kristrún.

Aftur til Bændasamtakanna

„Ég sný aftur til fyrri starfa hjá Bændasamtökunum,“ sagði Árni Snæbjörnsson ráðunautur.

Árni kvaðst eiga eftir að ræða við sína menn hjá Bændasamtökunum. Hann var í launalausu leyfi þaðan þann tíma sem hann var aðstoðarmaður ráðherra.

„Ég var ráðinn til Jóns og fór sjálfkrafa út þegar hann hætti,“ sagði Árni. gudni@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert