Með aflífunarbeiðni um hálsinn

Hanna M. Arnórsdóttir að störfum á Dýraspítalanum. Hundurinn á myndinni …
Hanna M. Arnórsdóttir að störfum á Dýraspítalanum. Hundurinn á myndinni er ekki sá sem fannst á flandri í Garðabæ. mbl.is/Rax

Stálpaður blendingshundur sem var á flandri í Garðabæ í gær var með bréf um hálsinn þar sem eigandi hans segist ekki geta haldið hundinn og biður finnanda um að gera það mannúðlegasta í stöðunni - að lóga hundinum. Hundinum var komið til Dýraspítalans í Garðabæ og bíður hann nú eftir framtíðareiganda.

Hanna M. Arnórsdóttir, dýralæknir á Dýraspítalanum í Garðabæ, segir að leikskólakennarar á leikskólanum Kirkjubóli, sem er fyrir ofan Dýraspítalann, hafi tekið eftir hundinum, blendingi af íslensku kyni, um hádegisbil í gær. Hann hafi verið að hnusa í kringum skólann og þær séð að hann var með einskonar plasthylki eða plastpoka hangandi í hálsólinni. Þær reyndu að ná hundinum, enda vorkenndu þær honum og vildu gefa honum en tókst ekki.

Eitthvað skúffuð með hundinn

Síðar um daginn rakst leikskólakennari aftur á hundinn í grenndinni, reyndi að ná honum en tókst aðeins að grípa í plastpokann sem losnaði við það af ólinni en hundurinn slapp. Inni í pokanum var bréf, tvær blaðsíður, þar sem eigandi hundsins, kona, lýsti bágum fjárhagslegum aðstæðum sínum. Hún teldi sér ekki fært að halda hundinn lengur og hefði ekki efni á að láta lóga honum. Einnig kom fram að hún var eitthvað skúffuð með hundinn, hún taldi hann ekki hegða sér eins og hundar ættu að gera og taldi líklegt að hann hefði orðið fyrir einhvers konar ofbeldi áður en hann komst í hennar hendur, að sögn Hönnu.

Hundaeftirlitsmaður var í kjölfarið látinn vita og eftir að hundurinn fannst í Garðabæ var hann færður á Dýraspítalann. Hann er nú í vörslu vinkonu Hönnu sem stundum hefur hlaupið undir bagga í aðstæðum sem þessum.

Hanna varð sem sagt ekki við aflífunarbeiðninni sem hékk um hálsinn á hundinum. „Það hefði verið einfaldasta lausnin en maður hefur tilhneigingu til að gefa dýrum annað tækifæri,“ segir Hanna.

Vel haldinn og með fallegan feld

Hanna segir að miðað við hegðun hundsins síðan hann fannst sé hann besta skinn. Hann hafi verið vel haldinn og með fallegan feld. Ekki hafi heldur verið nein merki um að einhverju sinni hefði verið farið illa með hann. Í bréfinu hafi eigandinn lýst því að hann vældi þegar tekið væri í ólina en Hanna segir að það sé alls ekki óeðlilegt. Fólk eigi það til að beita snöggum hreyfingum og rífa of harkalega í hálsólar hunda. Væl séu eðlileg varnarviðbrögð við sársauka.

Aflífun á hundi af þessari stærð kostar 8-9.000 krónur. Við það bætist lyfjakostnaður og eyðingargjald þannig að heildarkostnaður gæti verið um 16.000 krónur.

Því fylgir ábyrgð að fá sér gæludýr

Hanna segir alltof algengt að fólk fái sér gæludýr án þess að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð og þeim kostnaði sem því fylgir. „Það er viðhaldskostnaður sem þessu fylgir,“ segir hún. Dýrið geti veikst, það verði gamalt, það geti þurft dýrara fóður en upphaflega var reiknað með o.s.frv. Fólk verði að vera visst um að hafa efni á að eiga gæludýr, áður en það fær sér dýr. „Ég vildi óska að þessi manneskja hefði haft samband við okkur vegna þess að við hefðum hugsanlega getað aðstoðað hana við að finna leið út úr þessu, með öll okkar sambönd,“ segir Hanna.

Of algengt að dýr séu skilin eftir á vergangi

Hanna segir að því miður sé töluvert algengt að gæludýr séu skilin eftir á vergangi, oftast kettir en einnig hundar. Slíkt megi alls ekki gera enda geti dýrin veslast upp og valdið skaða á sér sjálfum eða öðrum.

Fólk sem hefur áhuga á að eignast hundinn getur haft samband við Dýraspítalann í Garðabæ á morgun. „Ef fólk hefur áhuga á að eignast vin getur það haft samband. Þetta er ekki spurning um reddingu, þetta er spurning um að eiga hundinn til framtíðar,“ segir Hanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert