Ögmundur: Rétt að hanga á völdunum?

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þannig hljóta stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar að spyrja sig hvort undir öllum kringumstæðum sé rétt að hanga á völdunum. Í mínum huga er svarið engan veginn einhlítt, það er háð aðstæðum í tíma og rúmi,“ skrifar Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á vefsíðu sína í dag. 

Ögmundur fjallar um hlutverk stjórnmálamannsins og lýsir afstöðu sinni til valdabaráttu svo:

„Sjálfur hef ég alla tíð haft sterka fyrirvara gagnvart hrárri valdapólitík og tel því mikilvægt að halda stöðugt að okkur gagnrýnum spurningum um völd og áhrif. Sem betur fer hefur stjórnmálaflokkum oft tekist bærilega að láta orð sín og athafnir ríma og vera trúir hugsjónum sínum. Mörg dæmi eru líka um pólitískar hrakfarir þegar leiðarljósið hefur verið það eitt að halda um valdatauma.“

„Forkastanleg afstaða“ stjórnlagaráðs

Ögmundur lýsir yfir óánægju með afstöðu stjórnlagaráðs til kosninga um fjárhagsleg efni.

„Þá voru það mér vonbrigði að í tillögum Stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir banni við því að almenningur fái að kjósa beint um fjárhagsleg efni, nokkuð sem ég finn enga réttlætingu fyrir. Þetta byggist á því afturhaldssama viðhorfi að á vissum sviðum sé réttlætanlegt að hafa vit fyrir fólki!

Þetta er forkastanleg afstaða því staðreyndin er sú, að þótt einstaklingarnir trúi og treysti á eigin dómgreind, þá hafa þeir ekki rétt til að traðka á dómgreind annarra. Þar kemur til kasta hinnar lýðræðislegu kröfu; sú krafa á ekki að lúta skömmtunarvaldi duttlungastjórnmála. Sú krafa byggist nefnilega á óvéfengjanlegum rétti.“

Blair víti til varnaðar

Að mati Ögmundar gróf „nýkratismi“ undan stoðum velferðarkerfisins á Bretlandi „með því að múlbinda félagslega þenkjandi en flokkshollt fólk“, en hann gerir ennig upp valdatíð Tonys Blair og Gordons Brown á heimasíðu sinni í dag.

Sem kunnugt er komst Blair til valda árið 1997 og varð þá mörgum jafnaðarmönnum að innblæstri, þar með talið á Íslandi, sem fyrirmynd um hvernig sameina mætti velferðarstefnu og frelsi í markaðsbúskap. Brown tók við honum 2007 og hélt völdunum til 2010, er Íhaldsmenn og Frjálsir demókratar komust til valda.

Vilja „falbjóða“ orkuauðlindirnar

Orðrétt skrifar Ögmundur, sem er menntaður stjórnmálafræðingur frá Edinborgarháskóla:

„Þannig er það mitt mat að stjórnarseta breska Verkamannaflokksins, undir forystu þeirra Blairs, Browns og félaga frá 1997 og vel fram á þessa öld, hafi verið til mikillar óþurftar, veikt stoðir velferðarkerfisins breska og grafið undan félagshyggjustjórnmálum með því að múlbinda félagslega þenkjandi en flokkshollt fólk. Þetta var okkur sem fyldumst náið með framvindunni í Bretlandi víti til varnaðar, dapurleg birtingarmynd úr heimi þöggunarstjórnmála.

Í stjórnandstöðu hefði Verkamannaflokkurinn hugsanlega verið gagnrýnni, alla vega grasrótin, og þannig getað haft jákvæðari áhrif á breska þjóðfélagsþróun. Um það má þó deila í ljósi þess að hægri sinnaður nýkratismi hafði náð tökum á flokknum og hefði málflutningur hans í stjórnarandstöðu, altént flokksapparatsins, að öllum líkindum verið á markaðsvísu og hægri sinnaður, svipað því sem við þekkjum hér á landi frá núverandi stjórnarandstöðu, sem helst grætur auðlegðarskatt og tregðu við að  falbjóða orkuauðlindirnar fjölþjóðaauðvaldi til brúks,“ skrifar Ögmundur.

Pistil innanríkisráðherra má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert