Helstu forsendur innan raunhæfra marka

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng. mbl.is

Helstu forsendur varðandi stofnkostnað og rekstur Vaðlaheiðarganga eru innan raunhæfra marka, að mati IFS Greiningar sem vann greinargerð í tengslum við fyrirhugaða framkvæmd fyrir fjármálaráðuneytið. Þó er bent á að óvissa ríki um endurfjármögnunarkjör að loknum þriggja ára rekstrartíma ganganna. Því þurfi að styrkja fjármagnsskipan Vaðlaheiðarganga ehf. fari svo að forsendur fjármögnunar þróist með neikvæðum hætti.

IFS Greining fór yfir forsendur um áætlaðan stofnkostnað og rekstur og bar saman við rannsóknir, útreikninga og álit sérfræðinga á sviði jarðgangagerðar. Við mat á gæðum kostnaðaráætlana er horft til reynslu af áætlunum vegna byggingar síðustu ganga og litið til upplýsinga frá Vegagerðinni um það hvernig áætlanir þeirra hafa verið uppfærðar í ljósi reynslunnar af byggingu fyrri ganga.

Að mati IFS eru forsendur varðandi þessa þætti í áætlunum verkefnisins innan raunhæfra marka, þar sem þær byggjast á áætluðum kostnaði Vegagerðarinnar, að teknu tilliti til niðurstöðu útboðs og 7% óvissuálags. Rökstuðning fyrir þessari niðurstöðu er að finna í skýrslunni og farið yfir samanburð við fyrri verkefni sem unnin hafa verið af Vegagerðinni.

Niðurstöður IFS varðandi fjármögnunarhlið verkefnisins eru þær að fjármagnsskipan og vaxtakjör sem viðskiptaáætlanir byggjast á innifeli ákveðna óvissu og áhættu. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði endurfjármagnað að loknum þriggja ára rekstrartíma. Í viðskiptaáætlun er gert ráð fyrir að vaxtakjör við endurfjármögnun verði 3,7% fastir verðtryggðir vextir. Í skýrslu IFS kemur fram að ekki sé hægt að fullyrða um fjármögnunarkjör á þeim tíma en líta verði til þess að miðað við þau kjör sem bjóðast á markaði í dag þyki þessi kjör fulllág nema til komi auknar tryggingar eða ávinningshlutdeild. Þrátt fyrir að í þessu felist áhætta fyrir lánveitandann um endurfjármögnun verkefnisins vegur það á móti að á þeim tíma hefur mikilli óvissu um framtíðarhorfur verkefnisins verið eytt.

Í niðurstöðu IFS um fjármagnsskipan félagsins kemur fram að miðað við viðskiptaáætlun félagsins og helstu forsendur gangi verkefnið upp. Hins vegar séu fjölmargir þættir sem geta horft til verri eða betri vegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert