Fréttaskýring: Ólíkar spár um umferð og greiðsluvilja

Enn ein úttektin á Vaðlaheiðargöngum verður kynnt og rædd í ríkisstjórninni í dag. Um er að ræða úttekt sem fjármálaráðherra fékk fyrirtækið IFS Ráðgjöf ehf. til að gera á arðsemi ganganna. Ekki liggur fyrir hvort hún verður birt opinberlega strax að loknum fundinum en skv. upplýsingum sem fengust í fjármálaráðuneytinu í gær verður úttekt IFS Ráðgjafar send fjárlaganefnd til umfjöllunar að lokinni kynningu í ríkisstjórn.

Beiðni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands verði fengin til að vinna óháða úttekt á Vaðlaheiðargöngum er enn óafgreidd í forsætisnefnd þingsins.

Kristín H. Sigurbjörnsdóttir, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga, er óhress með það hversu dregist hefur að stjórnvöld taki ákvörðun, af eða á, um verkið. Þrír mánuðir eru liðnir frá því tilboð í göngin voru opnuð. Verktakar hafa þurft að sýna mikla þolinmæði og Vegagerðin hefur t.d. í þrígang þurft að fresta opnunardegi tilboða sem borist hafa í útboði á eftirliti með gerð jarðganganna.

Sú úttekt sem vakið hefur mesta athygli á seinustu dögum er svört skýrsla Pálma Kristinssonar verkfræðings, sem komst að þeirri niðurstöðu að innheimta veggjalda mundi ekki ná að standa undir öllum kostnaði við göngin á næstu árum miðað við þær forsendur sem kynntar hafa verið. Göngin væru of dýr framkvæmd og spá um umferðaraukningu á næstu árum of há, að mati Pálma, sem var á sínum tíma aðalráðgjafi lífeyrissjóða í viðræðum við stjórnvöld um fjármögnun stórframkvæmda í vegagerð og var ráðgjafi Spalar við undirbúning Hvalfjarðaganga.

Óvissan um umferðarspár og greiðsluvilja ökumanna vegna Vaðlaheiðarganga, sem stytta hringveginn um 15,7 km., hefur því vaxið ef eitthvað er. Þegar birt var mat á arðsemi ganganna árið 2006 var gert ráð fyrir að umferðaraukning um Víkurskarð yrði 4% á ári til ársins 2011. Á þeim tíma sáu menn ekki kreppuna fyrir en forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga ganga nú út frá þeirri forsendu að umferð um þjóðvegi landsins muni ekki dragast meira saman en orðið er, heldur aukast um 1% á ári fram að opnun ganganna á árinu 2015. Þetta er sögð vera varfærin spá.

Pálmi spáir á hinn bóginn áframhaldandi samdrætti í umferð á þjóðvegum landsins á næstu 3-5 árum, sem gæti numið um 20%.

Lærdómsríkt er að rifja upp sögu Hvalfjarðarganga þegar reynt er að spá hegðun ökumanna. Skv. skoðanakönnunum skömmu fyrir upphaf framkvæmda við Hvalfjarðargöngin voru 70% þeirra sem tóku afstöðu, andvíg byggingu ganganna og stór hluti þeirra taldi ólíklegt að hann myndi nota göngin. Annað kom á daginn en í skýrslu Pálma kemur fram að áætlanir um umferðarþróun brugðust algjörlega á öllum sviðum. Þannig var t.d. almenn aukning umferðar síðustu 3-4 árin fyrir opnun Hvalfjarðarganga 25% meiri en áætlað var og fljótlega varð ljóst eftir opnun að umferðin um þau var ríflega tvöfalt meiri en áætlað var.

Pálmi bendir á að stytting ferðatímans og fjárhagslegur ávinningur af að aka um Hvalfjarðargöng í stað þess að aka fyrir Hvalfjörðinn hafi skipt miklu. Umferð um Vaðlaheiðargöng sé hins vegar að stærstum hluta svæðisbundin. En það má líka velta því fyrir sér hvort nokkrum hafi komið til hugar árið 1998 að á næstu 10 árum myndi umferð um Víkurskarð aukast um 70%, sem varð þó raunin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert