Umhugað um myrkrið

Mörður Árnason
Mörður Árnason Morgunblaðið/Eggert

Varðveisla næturhiminsins er eitt af baráttumálum Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, ef marka má áhuga hans á ljósmengun. Mörður spyr umhverfisráðherra þriðja sinni á Alþingi eftir helgi hvort hann hyggist beita sér fyrir því að athuguð verði ljósmengun á Íslandi og ráðstafanir gerðar í því sambandi.

Fyrsta fyrirspurn Marðar var gerð árið 2004 en þá gegndi Siv Friðleifsdóttir embætti umhverfisráðherra. Mörður sagði það í fyrsta skipti sem orðið ljósmengun væri nefnt á þinginu. „Því er ekki að leyna að sumir hafa spurt mig hvort ég sé að búa til vandamál, hvort ég telji ekki að myrkur sé nægt á Íslandi, a.m.k. að vetri til,“ sagði Mörður en bætti við að íbúar höfuðborgarsvæðisins finni að á undanförnum áratugum hafi dregið úr fegurð næturhimins . „Það þarf að fara töluvert út fyrir borgina til að njóta þeirrar dýrðar sem næturhiminninn stjörnum prýddur, alstirndur, er. Þar með höfum við tekið frá börnum okkar tækifæri sem við höfðum sjálf í æsku, að njóta þessa himins.“

Ráðherrann svaraði því til að rannsóknir hefðu ekki farið fram hér á landi um viðhorf almennings eða ferðamanna til ljósmengunar eða á umfangi og útbreiðslu hennar á landinu. Og að ekki væru uppi sérstakar áætlanir til að athuga ljósmengun í náinni framtíð. „Því er til að svara að af mörgum málum sem eru í forgangi hjá umhvrn. og undirstofnunum ráðuneytisins hafa ekki komið upp hugmyndir um að nota fjármagn til að fara í sérstaka könnun á ljósmengun á Íslandi. Þetta vandamál er minna hér en víðast annars staðar. Menn vilja hafa þau svæði upplýst sem þeir fara almennt um. Það er því ekki í forgangi að gera neitt sérstakt átak í þessu og hafa ekki komið neinar tillögur um það frá undirstofnunum okkar,“ sagði Siv.

Enn ekki í forgangi árið 2006

Tveimur árum síðar spurði Mörður ráðherra á nýjan leik en þá varð til svara Sigríður A. Þórðardóttir, þáverandi umhverfisráðherra. Mörður sagði þá að finna mætti fyrirspurn sinni jákvæðara heiti en ljósmengun. „Það mætti t.d. kalla hana „varðveisla næturhiminsins“ eða „skynsamleg orkunýting“ eða „samkomulag nágranna um næsta umhverfi sitt“, vegna þess að alla þessa þrjá þætti spannar þetta hugtak, ljósmengun, sem er tiltölulega nýtt og var fyrst fest í Alþingistíðindi í fyrra í fyrirspurn sem ég flutti þá og var raunar orðuð á nákvæmlega sama hátt.“

Eftir að hafa borið upp spurningu sína - um hvort ráðherra hvort ljósmengun hafi verið til umræðu á hennar vegum og hvort ráðagerð sé til um sama efni - svaraði Sigríður því til, að sannarlega væru mikil lífsgæði og heilmikil uppeldisáhrif í því fólgin „að geta notið þeirra fyrirbæra sem eru á hinum dýrðlega næturhimni á Íslandi.“ Í íslenskum lögum væru þó engin ákvæði eða skilgreiningar er varða ljósmengun beint eða aðgerðir til að takmarka hana.

Sigríður sagði ennfremur alveg ljóst að ættu stjórnvöld að takmarka hugsanlega ljósmengun þyrfti að festa í lög ákvæði þar um. „Hins vegar hefur það ekki verið sett í forgang í umhverfisráðuneytinu að athuga ljósmengun hér á landi eða að gera sérstakar áætlanir í þá veru, a.m.k. ekki í náinni framtíð. En ég vil hins vegar segja það hér, og hef raunar sagt það áður, að mér finnst þessi umræða mjög athyglisverð.“

Mest ljósmengun í Kópavogi

Eins og áður segir mun Mörður bera spurningu sína þriðja sinni upp á mánudag. Þá verður fyrir svörum Svandís Svavarsdóttir. Á vefsvæði sínu segir Mörður svör fyrri ráðherra hafa verið lítil og vonast hann til að Svandís svari betur. „Ljósmengun er ekki einfalt úrlausnarefni og tengist auðvitað lifnaðarháttum okkar, eyðslusemi og slöseríi. Margt má gera til að draga úr mengun af ljósum án þess að valda óþægindum fyrir umferð, atvinnulíf og sálarástand íbúanna, og er reynt víða erlendis. Hér heima standa Borgnesingar fremstir í flokki við að vinna gegn ofnotkun ljósa í byggð, en Borgarbyggð er eina sveitarfélagið með reglur um þetta,“ segir Mörður sem telur líklegt að höfuðborgin með grannbæjum sé eitt af upplýstustu byggðarsvæðum jarðar, miðað við höfðatölu.

Mörður bendir einnig á, að á morgun muni félagið Græna netið halda sérstakan fræðslufund um verðmæti myrkursins í golfskálanum á Seltjarnarnesi. „Gestur fundarins er stjörnuáhugamaðurinn Snævarr Guðmundsson, landfræðingur og leiðsögumaður, sem hefur nýlega kannað ljós og myrkur að næturlagi á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu – og komist að því meðal annars að ljósmengun í einstökum sveitarfélögum er mest í Kópavogi, sem er þar með þeirra upplýstast. [...] Á svæðinu öllu er næturbirta, og þar með hulinn næturhiminn – frá fjórum til sjö sinnum meiri en á Þórshöfn, þar sem enn er stjörnubjart þegar vel viðrar að nóttu.“

Stjörnur.
Stjörnur. Ljósmynd/eso.org
Sjaldan sést stjörnubjarturhiminn í Reykjavík vegna ljósmengunar.
Sjaldan sést stjörnubjarturhiminn í Reykjavík vegna ljósmengunar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Kort sem sýnir kortið stjörnuhimininn yfir Íslandi að vori. Mynd …
Kort sem sýnir kortið stjörnuhimininn yfir Íslandi að vori. Mynd fengin af Stjörnufræðivefnum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert