Ætlar að greiða atkvæði gegn frávísunartillögu

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður.
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður. mbl.is/Ómar

„Mér finnst hættulegt að samþykkja frávísunartillögu á þingsályktunartillögu sem kemur frá stjórnarandstöðunni. Verði slík frávísunartillaga samþykkt verður enn erfiðara fyrir stjórnarandstöðuna að koma málum í gegnum þingið,“ segir Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, á Facebook-síðu sinni í dag.

Eins og fram hefur komið er rætt um að flutt verði frávísunartillaga á Alþingi á þingsályktunartillögu Sjálfstæðisflokksins um að dregin verði til baka ákæra á hendur Geir H. Haarde, fyrrum forsætisráðherra, fyrir Landsdómi. Lilja greiddi á sínum tíma atkvæði með því að Geir ásamt þremur öðrum fyrrum ráðherrum yrðu ákærðir en niðurstaðan var að ákæra var einungis gefin út á hendur honum.

„Í nafni lýðræðis mun ég hafna tillögu þingmanna úr stjórnarflokkunum um að vísa frá þingsályktunartillögunni um að ákæran á hendur Geir H. Haarde verði dregin til baka. Afstaða mín til þess hvort draga eigi ákæruna til baka er enn sú að engin haldbær rök hafi komið fram sem réttlæta stuðning við það,“ segir Lilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert