Þungur tónn vegna svika

Vilhjálmur Birgisson
Vilhjálmur Birgisson SteinarH

„Það er mjög þungur tónn vegna svika ríkisstjórnarinnar. Það endurspeglaðist á þessum fundi,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, eftir langan formannafund Starfsgreinasambandsins eftir hádegi í dag. Hann er þó mótfallinn því að samningum verði sagt upp.

„Það er gríðarlega mikil gremja meðal formannanna vegna síendurtekinna svika ríkisstjórnarinnar. Endanleg afstaða verður hins vegar tekin á formannafundi ASÍ á morgun,“ segir Vilhjálmur. „Það var yfirgripsmikil yfirferð yfir málin á fundinum,“ segir hann.

Verkalýðsfélag Akraness og Framsýn voru ekki hluti af samninganefnd SGS þegar kjarasamningarnir voru gerðir í fyrra heldur sömdu sér. Formenn 13 aðildarfélaga SGS sem afhentu Starfsgreinasambandinu kjarasamningsumboð í síðustu samningum eru nú á fundi þar sem móta á afstöðu SGS til þess hvort segja beri upp samningum eða ekki.

Að sögn Vilhjálms hafa þrjú af aðildarfélögum SGS þegar lýst yfir að þau vilji að samningum verði sagt upp. Vilhjálmur segist hins vegar óttast að ef svo færi þá gætu launþegar lent í sömu stöðu og árið 2009 „þegar launahækkanir voru hafðar af fólki samhliða stöðugleikasáttmálanum“.

Lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina

„Ég er mótfallinn því að segja upp kjarasamningum vegna þess að það er ekki verið að sækja fram launahækkanir handa launafólki núna. Málið snýst fyrst og fremst um svik ríkisstjórnarinnar. Við höfum horft upp á þetta allt frá árinu 2008, þegar gert var samkomulag við fyrrverandi ríkisstjórn. Það búið er að svíkja hvert samkomulagið á fætur öðru. Þess vegna finnst mér ekkert annað vera í stöðunni en að lýsa yfir fullkomnu vantrausti á ríkisstjórnina,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert