Lyf í kynörvandi fæðubótarefnum

Passion Power er eitt efnanna sem Matvælastofnun tilgreinir
Passion Power er eitt efnanna sem Matvælastofnun tilgreinir Af vef Matvælastofnunar

Fæðubótarefni sem eru markaðssett sem kynörvandi fæðubótarefni og/eða sem fæðubótarefni sem lausn/hjálp við ristruflunum innihalda virk lyfjaefni án þess að þess sé getið á umbúðum þeirra.

Matvælastofnun hvetur fólk til að kaupa ekki vörurnar eða neyta þeirra þar sem þær geta verið hættulegar heilsu fólks.

Á vef Matvælastofnunar kemur fram að stofnuninni hafi nýverið borist upplýsingar frá spænsku lyfjastofnuninni (Agencia Española de Medicamentos y Productos Sanitarios, AEMPS) í gegnum viðvörunarkerfi Lyfjastofnunar um niðurstöður efnagreininga á nokkrum fæðubótarefnum.

Vörurnar reyndust allar innihalda virk lyfjaefni, í flestum tilfellum tadalafil-, sildenafil- eða sildenafil-hliðstæður (analogue) án þess að efnanna sé getið á umbúðum varanna. Ein varanna innihélt lyfjaefnið Phentolamine sem m.a. hefur verið notað við getuleysi. Samkvæmt innihaldslýsingum innihalda vörurnar mismunandi blöndur af jurtum.

Sildenafil og tadalafil eru virk lyfjaefni í lyfseðilsskyldum lyfjum hér á landi eins og Viagra og Cialis sem ætluð eru við ristruflunum. Efnið Phentolamine er einnig skilgreint sem lyf. 

Lyfjaefni sem þessi ætti aldrei að nota nema í samráði við lækni, í formi lyfja sem hafa markaðsleyfi, þar sem þau geta verið skaðleg heilsu séu þau ekki notuð á réttan hátt. Vara/fæðubótarefni sem inniheldur þessi lyfjaefni telst hættuleg matvæli, sérstaklega þegar efnanna er ekki getið á umbúðum varanna.

Sjá upplýsingar um efnin

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert