Fréttaskýring: Tekist á um tugi milljarða króna

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er í Húsi verslunarinnar.

Ef Lífeyrissjóði verzlunarmanna tekst að ná fram sínum ýtrustu kröfum gagnvart slitastjórnum Glitnis og Kaupþings vegna uppgjörs gjaldmiðlavarnarsamninga getur það bætt stöðu sjóðsins um tugi milljarða króna. Stjórn sjóðsins hefur falið lögmönnum hagsmunagæslu í málinu en ekki hefur náðst samkomulag í þessu ágreiningsmáli þrátt fyrir tilraunir í þá átt í þrjú ár.

Lífeyrissjóðirnir gerðu fyrir hrun gjaldmiðlavarnarsamninga til þess að draga úr sveiflum á erlendum eignum sjóðanna. Þegar bankarnir féllu voru þessir samningar 70 milljarða króna í mínus fyrir lífeyrissjóðina. Lífeyrissjóðirnir færðu verulega fjármuni á afskriftareikning vegna þessara samninga, en tóku jafnframt fram í ársreikningum sínum að ekki væri búið að leysa úr ágreiningi í málinu.

Landsbankinn samdi

Í fyrrasumar náðist samkomulag milli fulltrúa Landssamtaka lífeyrissjóða og skilanefndar Landsbanka Íslands um fullnaðaruppgjör framvirkra gjaldmiðlavarnarsamninga, sem 13 lífeyrissjóðir gerðu við bankann. Samkomulagið byggðist á því að gert var upp á gengi sem var nálægt því gengi sem gilti þegar bankarnir féllu eða um 175, en jafnframt voru reiknaðir vextir á upphæðina. Þessi niðurstaða var í samræmi við það sem lífeyrissjóðirnir höfðu bókað í ársreikningum sínum.

Helgi Magnússon, formaður stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, sagði að lífeyrissjóðirnir hefðu vonast eftir að tækist að semja við Glitni og Kaupþing í kjölfarið þar sem búið var að skapa fordæmi í málinu, en það hefði ekki gengið eftir.

„Þolinmæði okkar er á þrotum,“ sagði Helgi. „Við teljum að bankarnir hafi farið fram með óforsvaranlegum hætti. Við höfum falið lögmönnum okkar að skoða hvaða möguleika við getum átt á að sækja skaðabætur á hendur þeim sem stjórnuðum bönkunum. Við bendum á það sem er útbreidd skoðun, að það varð forsendubrestur og markaðsmisnotkun. Á þeim þremur árum sem reynt hefur verið að semja um niðurstöðu í málinu hafa alltaf verið að koma fram meiri og meiri upplýsingar sem styðja það að ekki hafi allt verið með felldu í bönkunum,“ sagði Helgi og benti í því sambandi á rannsóknarskýrslu Alþingis og málatilbúnað slitastjórnar Glitnis á hendur stjórnendum bankans. Slitastjórnin hefði lagt fram rök sem lífeyrissjóðirnir gætu nýtt sér.

Ekkert dómafordæmi er til í ágreiningsmáli af þessu tagi. Helgi sagði að stjórnendur lífeyrissjóðsins hefðu viljað leggja talsvert á sig til að eyða óvissu í þessu máli og þess vegna léð máls á að semja um niðurstöðuna. Hann tók fram að lífeyrissjóðurinn væri ekki búinn að loka samningaleiðinni.

  • „Við teljum að bankarnir hafi farið fram með óforsvaranlegum hætti. “ Helgi Magnússon
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert