Dóttirin gefur ekki skýrslu aftur

Stúlkan ber ekki vitni á ný gegn föður sínum.
Stúlkan ber ekki vitni á ný gegn föður sínum. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um að hafna kröfu verjanda manns sem grunaður er um ofbeldi gegn dóttur sinni, en hann vildi að hún gæfi skýrslu að nýju. Einn dómari skilaði séráliti og taldi að fallast ætti á kröfu verjandans.

Málið snýst um brot gegn stúlku fæddri árið 2000 en hún gaf skýrslu í Barnahúsi 30. nóvember sl. þar sem hún greindi frá grófu kynferðislegu ofbeldi sem hún sætti af hálfu föður síns.

Málið var þingfest 17. janúar og í þinghaldi 20. janúar kom fram krafa frá verjanda föðurins að stúlkan gæfi skýrslu að nýju. Vísaði verjandi til þess að fram hefði komið hjá móður stúlkunnar að hana kynni að hafa dreymt atvik og jafnframt kæmi fram í skýrslu sálfræðings að stúlkan hefði haft við orð í samtali þeirra að hana kynni að hafa dreymt atvik.

Héraðsdómur leit til þess að í lögskýringargögnum með lögum um meðferð sakamála er að því stefnt, að börnum, sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðisbroti, verði hlíft við því, eftir því sem kostur er, að þurfa að gefa skýrslu í opinberu máli oftar en einu sinni. „Er það markmið að hlífa börnum, eftir því sem unnt er, við því að þurfa að rifja oftar en einu sinni upp atburði sem oftast nær hafa valdið þeim miklum andlegum og jafnvel líkamlegum þjáningum.“

Dómurinn segir að framburð stúlkunnar afdráttarlausan og þykja hugleiðingar móður hennar og frásögn sálfræðings um samtöl þeirra ekki vera sérstök ástæða til þess nú að hún komi fyrir dóm að nýju.

Skýrar vísbendingar um rangan framburð

Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn og vísaði til forsendna héraðsdóms. Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari var hins vegar ósammála niðurstöðu meirihluta réttarins og skilaði séráliti.

Í áliti Jóns segir meðal annars: „Sakargiftir á hendur varnaraðila byggja í raun eingöngu á framburði dóttur hans. Fyrir liggur að dóttirin hefur sjálf, eftir að hún gaf dómskýrslu sína við upphaf rannsóknar málsins 30. nóvember 2011, ítrekað látið í ljósi efasemdir um réttmæti sakargifta sinna á hendur varnaraðila. Eins og málið liggur nú fyrir er ljóst að framburður hennar þá hefur lítið sem ekkert sönnunargildi um sakargiftirnar á hendur varnaraðila.“

Jón segir að í því ákvæði sem héraðsdómur vísi til sé gert ráð fyrir að brotaþoli skuli ekki koma fyrir dóm að nýju nema dómari telji sérstaka ástæðu til. „Vandséð er hvenær ríkari ástæða er til að kveðja brotaþola fyrir dóm á ný en í tilviki þar sem komnar eru fram skýrar vísbendingar um að fyrri framburður brotaþolans kunni að vera rangur og sakborningur sætir að auki gæsluvarðhaldi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert