Reynt að finna lausn á makríldeilunni

Frá upphafi fundarins í dag.
Frá upphafi fundarins í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Viðræður um lausn makríldeilunnar og skiptingu makrílkvótans fyrir þetta ár hófst á Hótel Sögu í Reykjavík í dag. Á fundinum eru auk samninganefndar Íslands fulltrúar Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja.

Síðustu fundir um lausn deilunnar fóru fram í Noregi í janúar og þar áður í desember á Írlandi en þeir fundir skiluðu ekki tilætluðum árangri þar sem of langt var á milli deiluaðila. Nú er ætlunin að gera aðra tilraun til þess að reyna að finna lausn.

Í samninganefnd Íslands eru Tómas H. Heiðar, aðalsamningamaður Íslands, Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ).

Í samtali við mbl.is sagðist Tómas ekki geta tjáð sig efnislega um viðræðurnar en lét þess hins vegar aðspurður getið að gert væri ráð fyrir að viðræðurnar stæðu alla vikuna og yrði hugsanlega ekki lokið fyrr en á föstudag. Það yrði einfaldlega að koma í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert