Brúarfoss rak stjórnlaust að landi

mbl.is/Sigurgeir

Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu þess varir í ferilvöktunarkerfum um klukkan þrjú í nótt að Brúarfoss, flutningaskip Eimskipa, var komið á rek þar sem það var statt vestur af Garðskaga á hefðbundinni siglingaleið um 6 sjómílur frá landi.

Kom í ljós að skipið átti við vélarvandamál að stríða samkvæmt tilkynningu frá Gæslunni og voru vélstjórar að vinna í málinu. Tekin var þá ákvörðun um að kalla strax í varðskipið Ægi sem var statt suður af Grindavík en að auki var haft samband við togarann Höfrung 3 sem var staddur á Stakksfirði. Voru skipin beðin um að sigla með auknum hraða á staðinn.

Brúarfoss rak hratt að landi þar sem það dróst að koma vélum skipsins í gang og var þyrla Gæslunnar því kölluð út í viðbragðsstöðu á Garðskaga og er hún enn í viðbragðsstöðu. Sömuleiðis voru björgunarsveitir Stysavarnarfélagsins Landsbjargar á svæðinu kallaðar út auk þess sem lögregla var upplýst um stöðu málsins.

Mjög slæmt veður var á staðnum með vestan stormi og sjö metra ölduhæð. Þegar Brúarfoss átti um tvær sjómílur eftur upp að grynningum lét áhöfnin akkeri falla sem hægði á reki skipsins. Þá var Höfrungur 3 kominn á staðinn en enn var klukkustund eftir í Ægi. Um það leyti komust vélar Brúarfoss í gang og sigldi skipið þá frá landi til þess að koma sér úr hættu og fylgdi Höfrungur 3 því eftir.

Brúarfoss siglir nú til suðurs frá Reykjanesi á leið til Vestmannaeyja og er skipinu fylgt eftir af varðskipinu Ægi.

Siglingaleið skipsins og sú leið sem skipið rak eftir að …
Siglingaleið skipsins og sú leið sem skipið rak eftir að það varð vélarvana. Af vef Víkurfrétta
TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar, að undirbúa flug að Brúarfossi.
TF-Gná, þyrla Landhelgisgæslunnar, að undirbúa flug að Brúarfossi. mbl.is/Hilmar Bragi
Sérfræðingar söfnuðust saman í björgunarstöðinni í Sandgerði í nótt til …
Sérfræðingar söfnuðust saman í björgunarstöðinni í Sandgerði í nótt til að ráða ráðum sínum. mbl.is/Hilmar Bragi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert